Guðjóna Kristjánsdóttir fæddist 24. nóvember 1958. Hún lést 11. mars 2015. Útför Guðjónu fór fram 19. mars 2015.

Okkur langar með nokkrum orðum að kveðja kæra vinkonu og samstarfsfélaga.

Guðjóna hóf nám við Hjúkrunarskóla Íslands árið 1979 og réðst að námi loknu til starfa á handlækningadeild Sjúkrahúss Akraness þar sem hún starfaði alla tíð, fyrstu árin sem almennur hjúkrunarfræðingur og sem deildarstjóri frá árinu 1985. Hún sinnti störfum sínum af einstakri vandvirkni og aflaði sér mikillar reynslu og þekkingar á hjúkrun skurðsjúklinga. Guðjóna var ráðagóð, umhyggjusöm og bar hag sjúklinga og starfsmanna sinna fyrir brjósti. Guðjóna naut virðingar í hópi vinnufélaga og oft var leitað eftir hennar ráðgjöf og áliti enda lá hún ekki á skoðunum sínum. Öll verk sem hún tók að sér, hvort sem var innan veggja sjúkrahússins eða við félagsstörf, var sinnt af miklum metnaði og samviskusemi.

Guðjóna var einstök persóna, bráðvel gefin, um margt fróð og víðlesnari hjúkrunarfræðingur er vandfundinn. Hún var ýmsum gáfum gædd sem hún nýtti í frístundum og má þar nefna hæfileikann til að ráða drauma, spá í spil og bolla. Guðjóna hafði ekki hátt um þessa hæfileika sína en við sem þekktum hana vel fengum að njóta. Það skapaðist sú skemmtilega hefð að láta hana spá í bolla þegar við hittumst utan vinnu og til þess voru keyptir sérstakir spábollar. Hin síðari ár fékkst hún talsvert við að yrkja og var gjarnan fengin til að setja saman vísu eða brag fyrir afmæli og sérstök tilefni meðal vinnufélaga. Guðjóna var mikill fagurkeri og enginn fór úr hennar húsi án þess að fá heimabakaðar kræsingar.

Við fórum ógleymanlega ferð til New York árið 2012 ásamt nokkrum vinnufélögum og úr þeirri ferð eigum við dýrmætar minningar. Jóhanna á góðar minningar úr fleiri utanlandsferðum með Guðjónu, þeirri fyrstu árið 1982 en saman fóru þær til Toronto, Puerto Rico, New York, Amsterdam, Grikklands, Parísar og Sloveniu.

Fyrir fjórum árum greindist Guðjóna með krabbamein og fyrir tæpu ári tók að halla undan fæti. Síðastliðið ár hefur verið erfitt og mikið á fjölskylduna lagt en aldrei heyrðum við Guðjónu kvarta. Hún átti einstaklega umhyggjusaman eiginmann sem stóð eins og klettur við hlið hennar allt fram á síðustu mínútu og góð dóttir og hennar fjölskylda gerðu það sem þeim var unnt til að létta henni lífið síðustu vikurnar.

Almari, Kristínu, Hrólfi, barnabörnum, systur og öðrum ástvinum sendum við einlægar samúðarkveðjur.

Að leiðarlokum þökkum við af heilum hug vináttu, samstarf, tryggð og allar ánægjulegu samverustundirnar við störf og leik síðustu 35 árin. Góðar minningar um einstaka konu lifa áfram.

Jóhanna F. Jóhannesdóttir og Steinunn Sigurðardóttir.

Hvað skal segja, nú þegar þessari baráttu vinkonu okkar, er lokið. Baráttu sem var háð af miklum krafti og lífsvilja. Stundum bjart, stundum ansi svart. Í þessari baráttu birtist raunsæið hennar, hún vissi vel hvert stefndi. En lífsviljinn var líka mikill og löngunin til að vera lengur með fólkinu sínu. Fólkið hennar stóð þétt með henni í þessari baráttu, eiginmaður, dóttir, systir og hópar af vinkonum og vinnufélögum sem vildu allt fyrir hana gera.

Okkar kynni voru löng og góð. Minningarnar margar sem við geymum eins og gull. Við höfum fylgst með hvor annarri í gegnum barneignir, fermingar, giftingar, barnabörn og ýmsar uppákomur sem lífinu fylgja. Við höfum ferðast saman, innanlands og utan, farið í sumarbústaði og skemmt okkur við alls kyns sprell. Það var ómetanlegt að hlæja með henni, hún hafði svo dillandi og smitandi hlátur. Hún var afburðafróð og víðlesin, las nánast allt sem hún komst í.

Barnæskan var skemmtileg á Skaganum, saumafundir í Frón, stúkufundir og stúkuböll, starfið í Skátafélaginu með útilegum og skátamótum. Barnaskólinn og gagnfræðaskólinn lágu létt fyrir henni því hún var námsmaður góður. Eftir gagnfræðaskólann fór hún í hjúkrunarnám og þar fann hún sína réttu hillu í lífinu. Hún starfaði alla sína tíð á Sjúkrahúsinu á Akranesi, lengst af sem deildarstjóri. Þar fengu margir notið hennar manngæsku, þekkingar og færni í starfi. Þar kveðja hana og sakna, margir góðir vinnufélagar sem urðu líka vinir hennar, í gegnum tíðina.

Hún var mikil fjölskyldumanneskja og elskaði að hafa fólkið sitt í kringum sig. Hún eignaðist eina dóttur Kristínu Björk og þrjár dótturdætur, Valgerði, Tönju og Eddu Sögu, sem voru líf hennar og yndi. Hún eignaðist góðan mann, Björn Almar Sigurjónsson sem stóð eins og klettur með henni alla tíð. Barnabörnin áttu gott skjól hjá ömmu og voru mikið hjá henni, til lengri og skemmri tíma.

Við vinkonurnar þökkum nú, af heilum hug, allar samverustundirnar, allar kræsingarnar sem hún bar á borð fyrir okkur, öll fallegu jólakortin sem hún skrifaði af einlægni, allan hláturinn með henni, allar góðar og daprar stundir með henni.

Við eigum eftir að sakna Guðjónu S.E. Kristjánsdóttur sem var okkur svo mikils virði.

Hvíl í friði, elskuleg.

Þínar vinkonur,

Brynja, Hlín og Þórunn.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Komið er að þeim tímamótum sem enginn fær umflúið í lífinu. Þegar horfið er á braut úr jarðnesku lífi fylgir förin til hins óþekkta og í þá för lagði Guðjóna okkar hinn 11. mars sl. Dauðans tími er alltaf óviss, jafnvel þótt fólk hafi um hríð staðið við dauðans dyr. Skilnaðurinn er svo algjör, umskiptin svo glögg.

Það sem er og hefur lengi verið, það verður skyndilega hluti af liðinni tíð. Eftir lifa minningar sem við eigum mikið af og yljum okkur við. Á tímamótum lítum við til baka og sjáum í skýrara ljósi en nokkru sinni fyrr hve mikið er skilið eftir.

Hún sýndi hetjulega baráttu í veikindum sínum en varð að lokum að játa sig sigraða. Hún tókst á við allan mótbyr í lífinu af æðruleysi og sýndi okkur hvernig á að vinna úr erfiðleikum á jákvæðan hátt ásamt því sem hún var ávallt boðin og búin til að hjálpa til þegar þörf var á.

Hún var einstök, skarpgreind, traust, víðlesin og einstaklega hagmælt. Það eru ófá skiptin sem við samstarfsfólkið leituðum í hennar smiðju þegar átti að gleðja samstarfsfélaga með góðri vísu. Oft leituðum við til hennar þegar átti að vinna úr faglegum úrlausnarefnum, og aldrei stóð á svari frá henni enda ráðagóð með eindæmum.

Nú þegar komið er að kveðjustund, viljum við, deildarstjórar Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi, þakka samfylgdina í gegnum árin, hvatninguna, stuðninginn og allt sem hún gerði fyrir okkur á óeigingjarnan hátt. Almari, Kristínu, Elísabetu og allri fjölskyldu hennar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minning þín lifir.

Fyrir hönd deildarstjóra HVE á Akranesi,

Anna Björnsdóttir.