Meistari María Guðmundsdóttir á fleygiferð í stórsviginu í Böggvisstaðafjalli í gær.
Meistari María Guðmundsdóttir á fleygiferð í stórsviginu í Böggvisstaðafjalli í gær.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skíðamót Íslands Sindri Sverrisson Pétur Hreinsson Víðir Sigurðsson María Guðmundsdóttir frá Akureyri varð Íslandsmeistari í stórsvigi kvenna á nýjan leik í gær og Einar Kristinn Kristgeirsson varð Íslandsmeistari í stórsvigi karla þriðja árið í röð en...

Skíðamót Íslands

Sindri Sverrisson

Pétur Hreinsson

Víðir Sigurðsson

María Guðmundsdóttir frá Akureyri varð Íslandsmeistari í stórsvigi kvenna á nýjan leik í gær og Einar Kristinn Kristgeirsson varð Íslandsmeistari í stórsvigi karla þriðja árið í röð en keppt var í greininni í Böggvisstaðafjalli við Dalvík.

María Guðmundsdóttir á bæði súrar og sætar minningar frá Skíðalandsmótum. Hún sleit krossband í hné á mótinu 2012 en jafnaði sig á því og varð Íslandsmeistari í stórsvigi ári síðar. Snemma árs 2014, rétt fyrir Vetrarólympíuleikana í Sotsjí, slitnaði aftur krossband í hægra hnénu, og um sumarið lýsti María því yfir að hún hefði lagt skíðin á hilluna. Hún tók þá ákvörðun til baka um áramótin, keppti á HM í Bandaríkjunum í febrúar og landaði svo á ný Íslandsmeistaratitli í stórsvigi í hlíðum Böggvisstaðafjalls við Dalvík í gær.

Það hefur eflaust kallað á kjark hjá Maríu að keppa aftur í stórsvigi í gær, því það var í þeirri grein sem hún sleit krossband á landsmóti 2012, og aftur á æfingu í þeirri grein í fyrra. Þessi staðreynd hafði sitt að segja um að María keppti ekki í stórsvigi á HM heldur aðeins svigi.

Líkleg í sviginu í dag

Sú var hins vegar ekki raunin í gær og María vann nokkuð öruggan sigur. Hún má teljast mjög líkleg til að vinna aftur í sviginu í dag. Hún hafði gott forskot eftir fyrri ferðina, eða 1,72 sekúndur, og náði næstbestum tíma í seinni ferðinni á eftir Helgu Maríu Vilhjálmsdóttur. María fór samtals á 2:29,50 mínútum en Helga á 2:31,08. Þriðja landsliðskonan, Erla Ásgeirsdóttir, tók bronsið á 2:33,28 mínútum.

„Það voru mjög góðar aðstæður, þeir eiga hrós skilið fyrir það miðað við hvernig færið var þegar við fórum að skíða í gær – hvað þeir náðu að gera vel við brekkuna,“ sagði María sem var ánægður með aðstæður í Böggvisstaðafjalli í gær.

Þriðji sigur Einars í röð

Einar Kristinn Kristgeirsson frá Reykjavík varð Íslandsmeistari í stórsvigi karla þriðja árið í röð. Einar fór ferðirnar samtals á 2:27,09 mínútum og var tæpri sekúndu á undan íshokkíkappanum Sturlu Snæ Snorrasyni. Arnór Dagur Dagbjartsson tók bronsið og Jakob Helgi Bjarnason, sem varð Íslandsmeistari í greininni árið 2012 aðeins 16 ára gamall, hafnaði í fjórða sæti.

Einar Kristinn á einnig titil að verja í svigi í dag og telst sigurstranglegastur. Hann varð hins vegar að sætta sig við að verða á eftir fjórum Norðmönnum í stórsviginu í gær, en Skíðalandsmótið er einnig alþjóðlegt FIS-mót.

Hefði viljað vinna Norðmennina

„Ég er ánægður en ég hefði samt viljað vinna Norðmennina sem voru á undan mér en það gerðist ekki. Markmiðið var alltaf að vinna FIS-mótið líka. Ég náði því bara öðru markmiðinu af tveimur en það er allavega fínt að ná einhverju markmiði. Það er alltaf gaman að vera Íslandsmeistari.

Ég hefði mátt gefa aðeins betur í í fyrri ferðinni, en seinni ferðin var mjög fín. Fyrri ferðin var svolítið bein braut og ég var aðeins of „passífur“ þar. Þetta var vel skíðað en það vantaði alla vinnslu úr beygjunum,“ sagði Einar við Morgunblaðið.

Sævar Birgisson og Elsa Guðrún Jónsdóttir, bæði úr Skíðafélagi Ólafsfjarðar, unnu sín önnur gullverðlaun á mótinu þegar þau sigruðu í göngu með hefðbundinni aðferð í Ólafsfirði í gær. Þau sigruðu bæði í sprettgöngu á fimmtudaginn.

Jöfn barátta lengst af

Sævar hafði aftur betur gegn félaga sínum úr landsliðinu, Brynjari Leó Kristinssyni frá Akureyri, eins og í sprettgöngunni í gær. Þeir voru hnífjafnir lengi vel en Sævar hafði betur á endasprettinum og gekk 10 kílómetrana á 25,26 mínútum. Brynjar var átta sekúndum á eftir honum á 25,34 sekúndum.

Þriðji varð síðan Gísli Einar Árnason frá Akureyri á 27,41 mínútum en sex göngumenn tóku þátt í greininni.

Elsa, sem vann sprettgöngu kvenna í fyrradag, sigraði í 7,5 km göngu kvenna á 23,42 mínútum, Jónína Kristjánsdóttir frá Ólafsfirði varð önnur á 25,22 og Sólveig María Aspelund frá Ísafirði varð þriðja á 26,59 mínútum.