[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Blái naglinn, góðgerðarsamtök sem styðja baráttu karlmanna með krabbamein, hefur gefið karlmönnum eldri en 50 ára skimunarpróf til að greina leynt blóð í hægðum.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Blái naglinn, góðgerðarsamtök sem styðja baráttu karlmanna með krabbamein, hefur gefið karlmönnum eldri en 50 ára skimunarpróf til að greina leynt blóð í hægðum. Stefnt er að því að allir karlmenn sem verða 50 ára á árinu fái prófið.

Hvort tveggja Krabbameinsfélag Íslands og Embætti landlæknis hafa sent frá sér samhljóða ályktun þar sem prófið er sagt gefa falskt öryggi.

Hinn 29. febrúar sl. sendi Embætti landlæknis frá sér tilkynningu þar sem þetta kemur m.a. fram: „Embættið vill taka það skýrt fram að frumkvæði Bláa naglans uppfyllir ekki ýtrustu kröfur um skimun og það próf sem notað er er ekki fullreynt og getur því skapað falskt öryggi fyrir þátttakendur.“

„Ég skil ekki af hverju Krabbameinsfélagið setur sig upp á móti þessu prófi sem er hvort tveggja ókeypis og sýnt hefur verið fram á að það virkar. Hægt er að koma í veg fyrir 25-30% dauðsfalla á ári með notkun þess. Til dæmis notar Johns Hopkins háskólinn í Baltimore í Bandaríkjunum prófið, þá er fullt af fyrirtækjum í Bandaríkjunum sem gefa starfsmönnum prófið,“ segir Jóhannes V. Reynisson sem er í forsvari fyrir Bláa naglann.

Hann segir það ekki sama hvernig prófið sem nefnist EZ DETECT Stool blood test, er tekið. Nákvæmar lýsingar um hvernig eigi að framkvæma það eru á prófinu. Prófið hefur verið samþykkt af lyfjaeftirlitinu í Bandaríkjunum og einnig hér á landi.

Jóhannes segir það einsdæmi að Krabbameinsfélag „djöflist“ í góðgerðarfélagi eins og Bláa naglanum fyrir það eitt að gefa próf sem mögulega gæti greint krabbamein í ristli. Sjálfur hefur hann verið í sambandi við krabbameinsfélög í Bandaríkjunum sem furða sig á viðbrögðum íslenskra kollega sinna.

Rótin afbrýðisemi og öfund

„Það er ekkert öruggt. Læknar fullyrða það meira að segja eftir rannsóknir sínar á sjúklingum. Ert þú alveg örugg um að þú sért ekki með einhvern sjúkdóm eftir læknisheimsókn?“ svarar Jóhannes, spurður út í það falska öryggi sem prófið er sagt veita. Þá vísar hann aftur í fyrrgreindar tölur.

Jóhannes segir að afbrýðisemi og öfund út í framtak Bláa naglans sé mögulega ein ástæðan fyrir gagnrýni Krabbameinsfélagsins og Embætti landlæknis á skimunarprófið.

„Krabbameinsfélagið er með allt niðrum sig. Það er allt of lítið að gerast í þessu svokallaða átaki og hóprannsóknum t.d. gegn ristilkrabbameini. Að mínu mati er stór hópur fólks á launum við að gera ekki neitt,“ segir Jóhannes. Í því samhengi bendir hann á að framtakið hans, Blái naglinn, hafi komið mjög miklu í verk í baráttunni gegn krabbameini karla.

Áður en Jóhannes fékk prófið til landsins fór hann á fund með Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans, og kynnti honum verkefnið. Einnig kynnti Jóhannes hugmyndirnar Einari S. Björnssyni, yfirlækni á lyflækningasviði Landspítala og prófessor í meltingarlækningum við HÍ. Jóhannes segir að þeir hafi tekið vel í þetta á fundi.

Ekki til framdráttar

„Hvorki Embætti landlæknis né Krabbameinsfélagið hefur haft samband við mig áður og rætt um prófið áður en þau sendu út þessa tilkynningu. Þessi vinnubrögð eru furðuleg og ekki þeim til framdráttar,“ segir Jóhannes.

Prófið mun ekki skila miklu

„Þetta próf er ekki nógu gott því það er ekki nógu nákvæmt. Ef notað væri sambærilegt próf hefði Embætti landlæknis mælt með öðru og nákvæmara prófi,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir hjá Embætti landlæknis.

Í þessu samhengi bendir hann á að árið 2009 hafi starfshópur, sem hann var í, skoðað sambærileg próf. Þar var annað skimunarpróf talið vænlegri kostur en umrætt próf, EZ DETECT. Það hafi verið nákvæmara. Haraldur bendir á að á sínum tíma hafi fjármunir staðið í vegi fyrir að almenn skimun fyrir ristilkrabbameini með blóðprófum í hægðum hæfist hér á landi.

Er það þá ekki þess virði að taka prófið ef það gæti mögulega greint einhver tilfelli krabbameins í ristli? „Við getum sagt að fyrir þann sem það hjálpar þá er það alltaf þess virði. En ef horft er til heildarinnar þá mun þetta ekki skila mjög miklu, að mínu mati. Þá er líka spurning hvort það ætti ekki að fara í ristilspeglun því það gæti líka skilað árangri,“ segir Haraldur og ítrekar að ekki sé vænlegt að fólk taki próf sem veiti því falskt öryggi en vissulega sé öllum frjálst að taka prófið sem það kjósa.