Hvað gerðist í skúmaskotum Brussel og Reykjavíkur?

Ríkisstjórnin og stjórnarflokkar hafa í annað sinn á rúmu ári klúðrað formlegri afturköllun aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Í fyrra gáfust flokkarnir upp á því að ljúka afgreiðslu þingsályktunartillögu, sem utanríkisráðherra hafði lagt fram vegna málþófs stjórnarandstöðu. Nú er málið í uppnámi vegna tilraunar til að afgreiða það með bréfaskiptum við Brussel, sem bersýnilega hefur ekki gengið upp í ljósi viðbragða þaðan.

Í fyrra uppfyllti ríkisstjórnin sjálfsagðar kröfur um lýðræðisleg vinnubrögð með því að leggja fyrir þingið þingsályktunartillögu um afturköllun aðildarumsóknar Íslands að ESB, sem Alþingi sjálft hafði tekið ákvörðun um sumarið 2009. Þá brást stjórnarandstaðan við með þeim ólýðræðislega hætti að vinna markvisst að því að koma í veg fyrir að vilji meirihluta Alþingis næði fram að ganga. Þeir sem þannig unnu þá geta ekki barið sér á brjóst í dag og talið sig málsvara lýðræðislegra vinnubragða.

Þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna felldu sumarið 2009 tillögu um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að þjóðin sjálf gæti ákveðið hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið eða ekki.

Þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna unnu að því veturinn og vorið 2014 að koma í veg fyrir að vilji meirihluta Alþingis um afturköllun aðildarumsóknarinnar næði fram að ganga. Slík vinnubrögð sýna ekki mikla virðingu fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum.

Þessi pólitíska fortíð Samfylkingar og VG, þegar kemur að málum sem snerta Ísland og ESB er eina hugsanlega afsökun núverandi stjórnarflokka fyrir því að leggja ekki fram þingsályktunartillögu á ný um afturköllun umsóknar. En hún dugar ekki til. Þótt Samfylking og VG hafi þannig í tvígang verið staðin að ólýðræðislegum vinnubrögðum réttlætir það ekki að núverandi stjórnarflokkar geri sig seka um það sama.

En í þessu tilviki var ekki einu sinni um það að ræða að ríkisstjórnin kæmi hreint fram og afturkallaði aðildarumsóknina með formlegum hætti bréflega, sem hún kveðst hafa álit lögfræðinga fyrir að hún geti.

Í þess stað er sent bréf, sem í er að finna orðaleik, sem samkvæmt skýringum Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra í Kastljósi RÚV sl. miðvikudagskvöld átti að lágmarka skaðann. Hvaða skaða? Það var erfitt að skilja ráðherrann á annan veg en þann að það ætti að fara svo vel að Evrópusambandinu í málinu að þeir í Brussel yrðu ekki reiðir út í Íslendinga fyrir að vilja ekki vera með þeim.

Í þeim skýringum ráðherrans, sem að vísu voru óskýrar, mátti heyra enduróm frá fyrri tíð. Annars vegar vegna Icesave-deilunnar, þegar Íslendingar áttu að taka á sig fjárhagslegar skuldbindingar, sem Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra hefur sagt að eilífðin öll hefði ekki dugað til að þjóðin greiddi. Og ástæðan var sú að ekki mátti skaða orðspor Íslands í útlöndum. Hins vegar vegna ítrekaðra landhelgisdeilna við Breta, þegar ráðamenn þjóðarinnar á þeim tíma lágu undir þrýstingi frá embættismönum og sérfræðingum um að gefa meira eftir til að skaða ekki orðspor Íslands í útlöndum. Þá var ekki hlustað á slíkar ráðleggingar.

Líklegra er þó að í þessu tilviki hafi aðrar ástæður legið að baki orðaleiknum í bréfi utanríkisráðherra en þær sem ráðherrann gaf upp í Kastljósi. Bréfið ber þess öll merki að vera sköpunarverk embættismanna og sérfræðinga í Reykjavík og Brussel, sem hafi haft eitt markmið: að halda dyragættinni opinni til þess að hægt væri að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið ef og þegar aðildarsinnuð ríkisstjórn kæmist til valda á ný án þess að hefja ferlið á byrjunarreit.

Afdráttarlausar yfirlýsingar talsmanna Evrópusambandsins í Brussel um að í bréfinu fælist ekki formleg afturköllun aðildarumsóknar benda til þessa.

Vandræðalegar yfirlýsingar forystumanna stjórnarflokkanna hér um að víst væri þetta afturköllun benda til þess að þeir hafi átt von á öðrum viðbrögðum frá Brussel. Kom Evrópusambandið kannski í bakið á þeim?

Það mun seint ganga að draga fram sannanir fyrir þessu úr skúmaskotum ESB í Brussel enda ekki enn búið að upplýsa opinberlega um samskipti okkar við Brussel vegna fiskveiðimála, sem Halldór Blöndal, fyrrum forseti Alþingis, vék að í grein hér í blaðinu í fyrradag, þegar hann sagði:

„Þegar kom fram á árið 2011 var ljóst að Evrópusambandið gaf ekki kost á varanlegum undanþágum sem tryggðu sérstöðu Íslendinga. Þar með lauk aðildarviðræðunum í raun og veru...“

Hvernig væri að utanríkisráðherra gæfi embættismönnum sínum fyrirmæli um að upplýsa þjóðina um hvað raunverulega gerðist í þessu grundvallaratriði. Þeir búa yfir þeirri vitneskju.

Ríkisstjórnin á enn nokkurra kosta völ eftir þessar hrakfarir. Hún getur lagt til við þingið að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram á þessu kjörtímabili um spurninguna af eða á.

Hún getur farið að ráðum Óla Björns Kárasonar, varaþingmanns Sjálfstæðisflokks, í grein hér í blaðinu fyrir nokkrum dögum, þar sem Óli Björn benti á þann kost að setja lög sem banni frekari viðræður við ESB um aðild án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um spurninguna af eða á.

Og svo getur hún auðvitað séð að sér og flutt þingsályktunartillöguna á ný um formlega afturköllun aðildarumsóknar.

En því miður eru litlar líkur á að hún hlusti á slíkar raddir.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is