Morgunblaðið greindi frá því á þriðjudag að greiðsluveitufyrirtækið Borgun hefði stokkið til í lok liðinnar viku og tekið eitthvað á þriðja hundrað milljónir króna út af reikningi sínum í Sparisjóði Vestmannaeyja.

Morgunblaðið greindi frá því á þriðjudag að greiðsluveitufyrirtækið Borgun hefði stokkið til í lok liðinnar viku og tekið eitthvað á þriðja hundrað milljónir króna út af reikningi sínum í Sparisjóði Vestmannaeyja. Það gerðist þegar fréttir bárust af því að Sparisjóðurinn stæði ekki sem best.

Margir hrukku við þegar fréttin barst og Innherji, sem er öllum hnútum kunnugur í íslensku viðskiptalífi, trúði vart eigin augum né eyrum. Hvað var Borgun, sem hagnaðist um samsvarandi fjárhæð árið 2013 og sem nemur öllu eigin fé Sparisjóðs Vestmannaeyja í lok þess árs, að gera með hundruð milljóna króna á trompbók þar á bæ? Á því hafa engar haldbærar skýringar fengist.

Það hafa lengi gengið um það sögur að fínt þætti að geyma fúlgur fjár á reikningum sem vistaðir eru á eyjum, svo sem Guernsey sem rís úr hafi rétt norðan Normandí og fjarlægari stöðum eins og Tortóla og öðrum Jómfrúareyjum breskum. Ekki hefur eins mikið farið fyrir þeirri tískubylgju að stórfyrirtæki geymi auð sinn í sparibaukum á landsbyggðinni, hvað þá á aflandsreikningum í Eyjum. Slíkar vendingar hafa þótt jafn fátíðar og það að finna fjögurra blaða smára í íslensku túni.

Alltént er vert að velta því fyrir sér hvort eðlilegt geti talist að eitt fyrirtæki geti komið sér í þá aðstöðu gagnvart fjármálastofnunum sem miklu skipta fyrir nærsamfélag sitt, að það geti með auðkennislykli og lykilorði þurrkað upp stóran hluta lauss fjár viðkomandi stofnunar. Nú þyrfti Fjármálaeftirlitið með sínum mikla mannafla að kanna hvort sparisjóðirnir sem enn lifa séu útsettir fyrir áhlaupi einstaka fyrirtækja sem eðlilega ókyrrast þegar fréttir berast af veikri stöðu vörslumanna fjáreigna þeirra.