Á nýafstöðnum landsfundi Samfylkingarinnar var samþykkt ályktun sem bar yfirskriftina „Náttúran er lífsnauðsyn“. Umrædd ályktun hefur vakið umtalsverða athygli þar sem hún felur í sér stefnubreytingu hjá Samfylkingunni í umhverfismálum. Í þessari grein verður þessi stefnubreyting gerð að umtalsefni og fjallað um það hvort hún kynni að hafa einhver áhrif í för með sér ef hún yrði síðar ríkjandi stefna íslenskra stjórnvalda varðandi olíuleit.
Í nefndri landsfundarályktun segir m.a.: „Vinnsla jarðefnaeldsneytis á íslensku hafsvæði er í ósamræmi við hagsmuni Íslendinga í loftslagsmálum, skapar hættu á mengunarslysum og umhverfisógn í grennd við fiskimið okkar og verðmæta strandlengju, og mundi skaða ímynd Íslands [...]. Samfylkingin telur að mistök hafi verið gerð þegar leit var hleypt af stað á Drekasvæðinu. Nú þarf að vinda ofan af þeirri leit og vinnsluáformum og lýsa því yfir að Íslendingar hyggist ekki nýta hugsanlega jarðefnaorkukosti í lögsögu sinni.“
Ljóst má vera að landsfundarályktunin felur í sér grundvallarstefnubreytingu frá fyrri stefnu Samfylkingarinnar í þessum efnum, en fyrrverandi ráðherrar Samfylkingarinnar leituðust eftir því á sínum tíma að erlendir aðilar hæfu olíuleit á hinu svokallaða Drekasvæði. Athygli vekur að í ályktuninni kemur fram að „[n]ú þurfi að vinda ofan af þeirri leit og vinnsluáformum“ en ekki er tiltekið hvernig það skuli gert. Það kann að vera vandkvæðum bundið í framkvæmd þar sem líkur eru á því, að afturköllun fyrri stjórnvaldsákvarðana í andstöðu við réttmætar væntingar þeirra sem leita olíunnar, brjóti gegn íslenskum lögum og valdi þeim er vinna við olíuleitina tjóni.
Fyrir nokkrum árum hélt íslenska ríkið útboð til að laða að fjárfesta sem hefðu bæði fjárhagslega burði og sérþekkingu til að finna olíu hér við land. Í útboðinu tóku þátt dótturfélög norskra og kínverskra ríkisolíufélaga og ráðgerðu stjórnvöld að íslenskur olíuiðnaður myndi ekki einungis leiða til aukinna skattgreiðslna ef olía fyndist heldur myndi hér komast á laggirnar umfangsmikil þjónustustarfsemi við olíuiðnaðinn. Að loknu útboðsferli var m.a. kínverska ríkisolíufélaginu veitt leyfi til 12 ára til að leita að olíu.
Í þessu samhengi er rétt að geta þess að árið 1994 gerðu ríkisstjórnir Íslands og Kína með sér tvíhliða fjárfestingasamning. Í formála hans segir m.a. að ríkin hyggist skapa hagstæðar aðstæður fyrir fjárfestingar og að það sé ljóst að hvatning til fjárfestinga og gagnkvæm vernd þeirra muni stuðla að auknu viðskiptalegu frumkvæði fjárfesta og auka hagsæld í báðum ríkjum. Í samningnum er fjárfesting skilgreind sem hver sú eign sem fjárfestir frá einu ríki (t.d. Kína) hefur fjárfest í á landsvæði hins ríkisins (t.d. Íslandi) á grundvelli laga og reglna þess. Þá er tiltekið að fjárfesting geti falist í rétti til atvinnurekstrar sem veittur er samkvæmt lögum eða samningi og í því sambandi tiltekið að undir þetta falli réttur til að leita að og nýta náttúruauðlindir.
Auk þessa tiltekur fjárfestingasamningurinn meginreglur sem tryggja fjárfestum tiltekin réttindi. Þannig segir að aðilar samningsins skuli gæta sanngirni og réttlætis hvað snertir meðferð fjárfestinga. Lýsa bæði ríkin því yfir að þau muni ekki grípa til óréttmætra aðgerða eða mismuna fjárfestingum og að þau muni virða allar skuldbindingar sem þau hafi tekið á sig. Þá er og lagt bann við að taka fjárfestingar eignarnámi og mælt fyrir um að slíkt verði ekki gert nema á grundvelli almannahagsmuna og að sanngjarnar bætur komi fyrir.
Af framangreindu er ljóst að það er vandkvæðum bundið að „vinda ofan af“ leyfum sem íslensk stjórnvöld hafa gefið út. Umtalsverður vafi yrði um lögmæti stjórnvaldsákvarðana sem teknar yrðu til að innleiða nýja pólitíska stefnu á þessu sviði og kynni slík stefnubreyting ekki einungis að brjóta gegn meginreglum stjórnsýsluréttar heldur ennfremur gegn ákvæðum tvíhliða fjárfestingasamnings Íslands og Kína sem er ætlað að tryggja fjárfestum frá þessum ríkjum tiltekna réttarvernd.