Gleði Bergrún Íris og Þórarinn eru tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2015, en Valgerður Benediktsdóttir hjá Forlaginu tók við viðurkenningunni fyrir hönd Þórarins.
Gleði Bergrún Íris og Þórarinn eru tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2015, en Valgerður Benediktsdóttir hjá Forlaginu tók við viðurkenningunni fyrir hönd Þórarins. — Morgunblaðið/Þórður
Bækurnar Maðurinn sem hataði börn eftir Þórarin Leifsson og Vinur minn, vindurinn eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur eru tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2015.

Bækurnar Maðurinn sem hataði börn eftir Þórarin Leifsson og Vinur minn, vindurinn eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur eru tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2015. Tilnefningarnar voru opinberaðar á alþjóðlegu bókamessunni í Bologna á Ítalíu í gær auk þess sem haldin var hátíðleg athöfn í Norræna húsinu í Reykjavík þar sem Þórarinn og Bergrún tóku við viðurkenningu.

Alls voru fjórtán barna- og unglingabækur tilnefndar þetta árið, einni bók fleiri en í fyrra. Dómnefndir stóru málsvæðanna fimm (þ.e. Íslands, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands) mega hver um sig tilnefna tvö verk sem komið hafa út á síðustu tveimur árum, en dómnefndir minni málsvæðanna (þ.e. Færeyja, Grænlands, Álandseyja, og samíska tungumálasvæðisins) mega tilnefna eitt verk hvert sem út hafa komið á seinustu fjórum árum. Allar nema ein þeirra bóka sem tilnefndar eru í ár komu út árið 2014, en önnur sænska bókin kom út 2013. Rökstuðning íslensku dómnefndarinnar má lesa í heild sinni á mbl.is.

Frá Danmörku eru tilnefndar annars vegar ljóðabókin Ella er mit navn vil du købe det? eftir Mette Hegnhøj og hins vegar skáldsagan Ud med Knud eftir Jesper Wung-Sung.

Frá Finnlandi eru tilnefndar annars vegar skáldsagan Maresi. Krönikor från Röda klostret eftir Mariu Turtschaninoff og hins vegar fræðibókin Leonardo oikealta vasemmalle eftir Marjatta Levanto með myndskreytingum Juliu Vuori.

Frá Noregi eru tilnefndar skáldsagan Joel og Io. En kjærlighetshistorie eftir Geir Gulliksen með myndskreytingum Önnu Fiske og hins vegar unglingaskáldsagan De som ikke finnes eftir Simon Stranger.

Frá Svíþjóð eru tilnefndar skáldsögurnar Jagger, Jagger eftir Fridu Nilsson og Mördarens apa eftir Jakob Wegelius.

Frá Grænlandi er tilnefnd skáldsagan Aqipi – til sommerfest eftir Naja Rosing-Asvid; frá Færeyjum er tilnefnd skáldsagan Og mamma! eftir Elin á Rógvi sem Marjun Reginsdóttir myndskreytti; frá Álandseyjum er tilnefnd skáldsagan Alberta Ensten och uppfinnarkungen eftir Malin Klingenberg og frá samíska tungumálasvæðinu er tilnefnd skáldsagan Duvro-guovža ja skohtermáðii eftir Veikko Holmberg sem Sissel Horndal myndskreytti.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 2013, en það ár þótti finnska skáldsagan Karikko eftir Seita Vuorela með myndskreytingum Jani Ikonen bera af. Í fyrra þótti norska skáldsagan Brune eftir Håkon Øvreås með myndum Øyvinds Torseter best, en íslensk þýðing á bókinni er væntanleg í haust.

Dómnefnd barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs útnefnir verðlaunahafann og tilkynnt verður um úrslit við hátíðlega athöfn í Reykjavík 27. október. Í verðlaun eru 350 þúsund danskar krónur. silja@mbl.is