Handbolti
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Í kvöld ræðst endanlega hvaða lið mætast í átta liða úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitil karla í handknattleik en lokaumferð Olís-deildarinnar er leikin í dag og kvöld.
Tveir leikjanna, sem fyrirfram gátu orðið hreinir úrslitaleikir, fara fram klukkan 15.30 og hvorugur þeirra skiptir máli. Toppliðin Valur og Afturelding, sem hefðu getað leikið hreinan úrslitaleik um sigur í deildinni, mætast á Hlíðarenda en Valur hefur tryggt sér toppsætið og Afturelding verður númer tvö.
Valsmenn munu mæta Fram í átta liða úrslitunum en Framarar verða í áttunda sæti, hvað sem þeir gera í leiknum við fallna Stjörnumenn. Það hefði getað verið úrslitaleikur liðanna um sæti í deildinni – ef Stjarnan hefði náð stigi af Val á mánudagskvöldið. Afar litlu munaði reyndar þar.
Afturelding fer út á land
Afturelding mætir liðinu sem endar í sjöunda sæti og ljóst er að Mosfellingar fara í allavega eitt ferðalag út á land. Sjöunda sætið fellur nefnilega ÍBV eða Akureyri í skaut.Leikirnir þrír um kvöldið, sem hefjast kl. 19.30, ráða því hverjir mætast í hinum einvígjunum en ÍR leikur við Akureyri, FH við ÍBV og Haukar við HK.
ÍR og FH eru jöfn með 30 stig og enda í þriðja og fjórða sæti. Haukar eru með 26 stig, Akureyri er með 25 og ÍBV 23 stig.
Möguleikar hvers liðs eru eftirfarandi:
*ÍR nær þriðja sætinu með því að vinna Akureyri en Breiðhyltingar verða fyrir ofan FH ef liðin enda jöfn að stigum. ÍR getur mætt Haukum, Akureyri eða ÍBV.
*FH nær þriðja sæti með því að fá stigi meira en ÍR í lokaumferðinni, en endar annars í fjórða sæti. FH getur mætt Haukum, Akureyri eða ÍBV.
*Haukar geta tryggt sér fimmta sætið með því að sigra HK. Gangi það eftir eru talsverðar líkur á að við fáum Hafnarfjarðarslag FH og Hauka í átta liða úrslitunum. Haukar enda í 5. eða 6. sæti og mæta FH eða ÍR.
*Akureyri getur náð fimmta sæti með því að fá stigi meira en Haukar í lokaumferðinni. Akureyri myndi hinsvegar enda í sjöunda sæti með tapi gegn ÍR, ef ÍBV vinnur FH. Akureyri getur því mætt Aftureldingu, ÍR eða FH.
*ÍBV getur náð sjötta sæti með því að sigra FH, ef Akureyri tapar fyrir ÍR, en endar annars í sjöunda sæti. ÍBV getur því mætt Aftureldingu, ÍR eða FH.
Í einföldu máli verða einvígi átta liða úrslitanna svona:
Valur – Fram
Afturelding – ÍBV eða Akureyri
ÍR – Akureyri, Haukar eða ÍBV
FH – Akureyri, Haukar eða ÍBV
Fyrstu leikir liðanna fara fram á þriðjudaginn kemur, 7. apríl, og þau mætast aftur fimmtudaginn 9. apríl. Ef til oddaleikja kemur fara þeir fram sunnudaginn 12. apríl.