Íslensk náttúra laðar til sín ferðamenn víða að og því tímabært að gerð verði áætlun um nýtingu og verndun hennar.
Íslensk náttúra laðar til sín ferðamenn víða að og því tímabært að gerð verði áætlun um nýtingu og verndun hennar. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Kr. Sigurðardóttir margret@mbl.is Stjórnvöld eiga að koma að áætlun um vernd og nýtingu náttúrunnar á forsendum ferðaþjónustunnar, segir formaður SAF.

„Við viljum vekja stjórnvöld til vitundar um mikilvægi ferðaþjónustunnar nú þegar atvinnugreinin er að skila gríðarlega miklum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið,“ segir Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), en í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna nýlega vakti hann máls á nauðsyn þess að gera rammaáætlun fyrir ferðaþjónustuna. „Náttúran er okkar fjöregg og aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Við viljum að vægi ferðaþjónustunnar sé í samræmi við þær tekjur sem hún skilar. Það hefur verið unnið að rammaáætlun fyrir vernd og orkunýtingu landsvæða í áratugi og nú finnst okkur tímabært að stjórnvöld komi að því að gerð verði áætlun til verndar og nýtingar náttúrunnar á forsendum íslenskrar ferðaþjónustu.“

Grímur leggur áherslu á að náttúruvernd og náttúrunýting með sjálfbærni að leiðarljósi sé eitt aðalverkefni íslenskrar ferðaþjónustu í náinni framtíð. „Rammaáætlun ferðaþjónustunnar verður að vinna með stjórnvöldum með þeim sama metnaðarfulla hætti og rammaáætlun um orkukosti hefur verið unnin, og hún á að hafa sama vægi, þegar horft er til verndar og nýtingar íslenskrar náttúru.“

Auka þarf fjármagn í innviði

Í ræðu sinni kom Grímur einnig að mikilvægi þess að hugað verði að innviðum atvinnugreinarinnar. Ferðaþjónustan skilaði 303 milljörðum króna í gjaldeyristekjur á síðasta ári og eru áætlanir um að atvinnugreinin skapi þjóðinni 430 milljarða gjaldeyristekjur innan tveggja ára. „Það er nauðsynlegt að setja stóraukið fjármagn í vegakerfi landsins og flugvallarstarfsemina,“ segir Grímur en í ræðu sinni nefndi hann að auk þeirra miklu gjaldeyristekna sem ferðaþjónustan skapi hafi hún jákvæð áhrif á og efli aðrar atvinnugreinar með beinum eða óbeinum hætti eins og verslun, landbúnað, sjávarútveg og skapandi greinar.

Grímur segir að nú sé mætt ný atvinnugrein til leiks með kröftugum hætti sem er að skapa ný tækifæri og við það verði ekki unað að ekki sé litið til hagsmuna hennar og þjóðhagslegra áhrifa með sama hætti og annarra gjaldeyrisskapandi atvinnugreina. „Það er full þörf á vitundarvakningu stjórnvalda í þessum efnum,“ segir hann.

Aðalfundur SAF var haldinn á Egilsstöðum og var sú staðsetning valin til að vekja athygli á að framtíðartækifærin í ferðaþjónustunni til vaxtar liggja fyrst og fremst á landsbyggðinni.