Bókin Það virðist stundum vera þjóðarsport Bandaríkjamanna að kvarta yfir vinnunni. Raunar sýna kannanir trekk í trekk að þar mælist starfsánægja með lægsta móti og allstór hluti landsmanna sem þykir allt annað en skemmtilegt að mæta til vinnu.
Þess vegna ætti ekki að koma á óvart að bók Jeff Goins hefur þotið hratt upp metsölulistana vestanhafs.
Bókin fjallar, í stuttu máli, um hvernig á að finna réttu hilluna í lífinu og hafa gaman af vinnunni. Verkið hefur fengið titilinn The Art of Work: A Proven Path to Discovering What You Were Meant to Do.
Boðskapurinn er í sjálfu sér ekki flókinn: að lykillinn að hamingju og velsæld liggur oftar en ekki í því að finna þau störf sem okkur þykja gefa lífi okkar tilgang. En að elta draumana er hægara sagt en gert, og sumir hafa ekki einu sinni hugmynd um hvað það er í raun sem þeir vilja gera – vita bara að núverandi starf er uppspretta leiðinda og vanlíðunar.
Goins reynir að leiða lesandann í gegnum leitina að ástríðunni, og hvernig á svo að stíga skrefið til fullnustu. Stundum þarf bara rétt að kveikja á perunni til að breyta heilmiklu, en í öðrum tilvikum þarf að þora að hugsa stórt og búa tækifærin til.
Eins og með aðrar bækur af þessum toga eru skilaboðin krydduð sögum af fólki sem hefur áttað sig á að við höfum ekkert að óttast nema óttann sjálfan. Skelfilegast af öllu er að eyða bestu árum ævinnar í leiðinlegu starfi, án nokkurs tilgangs annars en að fá peninga til að borga reikningana og eiga fyrir matarinnkaupunum.
ai@mbl.is