Grótta, undir stjórn Gunnars Andréssonar, undirstrikaði styrk sinn í keppninni í 1. deild karla í handknattleik í gærkvöldi með því að leggja Víkinga, 27:24, í lokaumferðinni á heimavelli. Grótta lauk þar með keppni í deildinni með 47 stig af 48 mögulegum í 24 leikjum. Víkingar urðu í öðru sæti með 44 stig en liðið tapaði aðeins í tvígang fyrir liði Seltirninga. Viggó Kristjánsson var að vanda markahæstur hjá Gróttu. Hann skoraði fimm mörk og Þórir Jökull Finnbogason kom næstur með fjögur mörk. Jóhann Reynir Gunnlaugsson fór hamförum hjá Víkingum og skoraði helming marka liðsins.
Fjölnir hafnaði í þriðja sæti og krækti sér í heimaleikjarétt gegn Selfossi í umspilskeppni um sæti í Olís-deildinni með þvi að skella KR-ingum, 38:22, í Dalhúsum. Í umspilskeppni um sæti í Olís-deildinni sem hefst á föstudaginn í næstu viku mætast Víkingur og Hamrarnir annarsvegar og Fjölnir og Selfoss hinsvegar. iben@mbl.is