Óveður Veðurlag í mars var stórgert og meðalvindhraði óvenjumikill.
Óveður Veðurlag í mars var stórgert og meðalvindhraði óvenjumikill. — Morgunblaðið/Golli
Marsmánuður var illviðra- og úrkomusamur, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert en mun skárri tíð var norðaustan- og austanlands.

Marsmánuður var illviðra- og úrkomusamur, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert en mun skárri tíð var norðaustan- og austanlands. Hiti var vel yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 um land allt, en undir meðallagi síðustu tíu ára á Suður- og Vesturlandi.

Veðurlag var stórgert og meðalvindhraði óvenjumikill. Oft urðu samgöngutruflanir vegna hríðarbylja, einkum á fjallvegum. Fokskaðar urðu víða, sérstaklega í óvenjuhörðu sunnanveðri þann 14. Norðurljósavirkni var mikil, einkum 17. mars. Þetta kemur fram í mánaðarlegum pistli á vef Veðurstofu Íslands.

Mesti hitinn 16,5 gráður

Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík mældist +0,7 stig, +0,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -1,0 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn +1,1 stig, +2,3 stigum yfir meðallagi 1961 til 1990 og +0,6 yfir meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var mestur í Surtsey, +3,0 stig, en minnstur á Þverfjalli og Brúarjökli, -5,9 stig. Minnstur var meðalhitinn í byggð í Möðrudal, -2,9 stig. Landsmeðalhiti í byggð var undir frostmarki 16 daga mánaðarins.

Mesti hiti mánaðarins mældist 16,5°C í Neskaupstað þann 21. Minnsti hiti á landinu mældist -21,2 stig á Brúarjökli þann 2. Minnsti hiti í byggð mældist -17,0 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 3.

Eitt landsdægurhámark féll í mánuðinum þegar hiti fór í 16,5 stig í Neskaupstað þann 21. Gamla metið, 15,4 stig, var sett á Hvanneyri 2005.

Úrkomu- og vindasamt

Úrkomusamt var í mánuðinum um mikinn hluta landsins en þó var úrkoma undir meðallagi víða á Norður- og Norðausturlandi. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meira voru 24 í Reykjavík, 10 fleiri en í meðalári og hafa ekki verið fleiri í mars síðan 1961, jafnmargir þó 1976. Á Akureyri voru slíkir dagar 10 og er það í meðallagi.

Meðalvindhraði var óvenju mikill, 0,9 m/s ofan við meðallag. Þetta er mesti meðalvindhraði í mars frá árinu 2000 að telja.

Stormasamt
» Stormasamt var um landið sunnan- og vestanvert en mun skárri tíð var norðaustan- og austanlands.
» Úrkomusamt var um mikinn hluta landsins og meðalvindhraði óvenju mikill.