„Það er búið að vera áhugavert ferli að endurfjármagna þetta góða félag og gera það hæft til skráningar í kauphöll.,“ segir Guðjón um það sem síðust ár hafa kennt honum.
— Morgunblaðið/Styrmir Kári
Í nógu er að snúast hjá Guðjóni Auðunssyni og ekki lítið verk að halda utan um 130 fasteignir af öllum stærðum og gerðum. Þá styttist óðum í skráningu hjá Kauphöllinni. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Í nógu er að snúast hjá Guðjóni Auðunssyni og ekki lítið verk að halda utan um 130 fasteignir af öllum stærðum og gerðum. Þá styttist óðum í skráningu hjá Kauphöllinni.
Hverjar eru stærstu áskoranirnar
í rekstrinum þessi misserin?
Undirbúningur og sala á rúmlega 13% hlut Arion banka í Reitum síðustu viku í opnu útboðsferli var áskorun sem tókst með eindæmum vel. Í framhaldinu verða Reitir skráðir í kauphöll þann 9. apríl nk. Það er jafnframt áskorun að stýra skráðu félagi í kauphöll.
Hver var síðasti fyrirlesturinn
eða ráðstefnan sem þú sóttir?
Sú fróðlega upplifun sem mér er efst í huga er tveggja vikna dvöl mín á Srí Lanka í febrúar sl. Hvernig þessi þjóð lifir, hvernig hún hugsar og hverjum augum hún lítur lífið almennt fær alla þá sem sækja hana heim ósjálfrátt til að hugsa um tilgang lífsins á nýjum forsendum.
Síðan var fyrirlesturinn sem ég fékk frá 5 ára dóttur minni fyrir nokkrum dögum einkar fróðlegur, en hann gekk að mestu út á af hverju gráar leggings passa ekki við bleikan kjól.
Hvaða bók hefur haft mest
áhrif á hvernig þú starfar?
Besta bók sem ég hef lesið er „Góði dátinn Svejk“ með sinni sjarmerandi blöndu af kímni, dýpt og fáránleika, en sem betur fer hefur sú bók takmörkuð áhrif á hvernig ég starfa. Þegar betur er að gætt er það líkast til sjálf Biblían sem hefur þau áhrif, þ.e. sú barnatrú sem maður tekur almennt með sér út í lífið úr þeirri átt.
Hver myndi leika þig í kvikmynd um líf þitt og afrek?
Í mín eyru hefur verið nefndur Chris Pratt, líklega þekktastur fyrir „Guardians of the Galaxy“. En ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.
Hvernig heldurðu við þekkingu þinni?
Síðustu ár í vinnu fyrir Reiti hafa kennt mér margt nýtt, bætt ýmsu við þekkinguna og reynsluna. Það er búið að vera áhugavert ferli að endurfjármagna þetta góða félag og gera það hæft til skráningar í kauphöll. En almennt tel ég mig vera sæmilega duglegan að sækja áhugaverða fyrirlestra og ráðstefnur eða grípa góða fræðibók í hönd. Svo er einnig margt fróðlegt efni orðið mjög aðgengilegt á netinu. Ted.com er t.d. mjög áhugaverður hlekkur þar sem alltaf er hægt að finna eitthvað áhugavert.
Hugsarðu vel um líkamann?
Já, það tel ég mig gera. Fótbolti og spinning á veturna, golf og hjólreiðar á sumrin eru helstu póstarnir hvað þetta varðar.
Hin hliðin
Menntun:
Samvinnuskólinn, stúdent 1982; 1987: BS í hagfræði frá Aalborg Universitet Center, 1987; Cand Merc í alþjóðahagfræði og markaðssetningu frá sama skóla 1989.
Störf:
Lektor við Viðakiptaháskólann á Bifröst 1989-1991; hjá Eimskipafélagi Íslands 1991-1999, m.a. framkv.stj. í Bandaríkjunum og Þýskalandi; Landsteinar ehf., framkv.stj.1999-2000; Samvinnuferðir-Landsýn, framkv.stj. 2000-2001, Olíufélagið Esso/N1, framkv.stj. fyrirtækjasviðs 2001-2010; Reitir fasteignafélag, forstjóri frá 2010. Stjórnarformaður Háskólans á Bifröst í sex ár, hef setið í stjórn Flugfélags Íslands, Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara, sit í stjórn Malik Supply A/S og Nordic Marine Oil A/S í Danmörku. Sit í stjórnum níu dótturfélaga Reita.
Áhugamál:
Ferðalög til framandi staða. Fótbolti, golf, fjallgöngur og hjólreiðar byrjaðar að komast á listann.
Fjölskylduhagir:
Í sambúð með Sigrúnu Andersen, saman eigum við 5 börn, fjögur tengdabörn og eitt barnabarn á leiðinni.