— Ljósmynd/Ólafur Sigfús Benediktsson
„Þeim var kalt, þeir orðnir þreyttir og leist illa á framhaldið.

„Þeim var kalt, þeir orðnir þreyttir og leist illa á framhaldið. Þeir voru heldur ekki alveg tilbúnir í svona ferðalag, voru ekki með þrúgur eða skíði,“ segir Ólafur Sigfús Benediktsson, íþróttafræðingur á Blönduósi og liðsmaður í Björgunarfélaginu Blöndu. Björgunarsveit félagsins var kölluð út í gærmorgun til að sækja fjóra breska ferðamenn sem ætluðu að ganga yfir Kjöl en leist ekki á blikuna í veðrinu sem þeir lentu í og óskuðu eftir hjálp.

Þetta eru fjórir háskólanemar á þrítugsaldri. Þeir eru vanir bakpokaferðalögum en hafa aldrei lent í eins miklum snjó og er á Kili og veðrum eins og þar eru. Ólafur segir að þeir hafi verið ágætlega klæddir og með góð tjöld og dýnur. Þeir hefðu þessvegna getað dvalið um tíma í tjöldunum. „Þeir sýndu skynsemi með því að biðja um aðstoð frekar en að reyna að halda áfram,“ segir Ólafur. Mennirnir voru í tjöldum sínum við Arnarbælistjörn þegar þeir óskuðu eftir aðstoð, um það bil miðja vegu á milli Blönduvirkjunar og Hveravalla.

Ólafur segir að ágætt veður hafi verið á staðnum þegar björgunarmenn komu þangað í gærmorgun, um það bil 10 stiga frost, skafrenningur og gekk á með nokkuð dimmum éljum en bjart á milli.

Farið var með Bretana á Blönduós. Þar fengu aðstöðu í húsnæði björgunarsveitarinnar til að breiða úr farangri sínum og bursta snjóinn af honum. „Þeir voru nokkuð brattir,“ segir Ólafur. Þeir ætluðu að taka Strætó suður til Reykjavíkur og endurskoða ferðaáætlun sína. helgi@mbl.is