Stjórnarskipti í Nígeríu eru fátíð

Úrslit forsetakosninganna í Nígeríu fela í sér allnokkur tíðindi. Sitjandi forseti, Goodluck Jonathan, beið nokkuð afgerandi ósigur gegn keppinauti sínum, Muhammadu Buhari, fyrrverandi hershöfðingja, þrátt fyrir að hafa frestað kosningunum til að takast á við Boko Haram og styrkja um leið stöðu sína.

Buhari ætti að vera öllum hnútum kunnugur í starfinu, þar sem hann leiddi herforingjastjórn í Nígeríu snemma á 9. áratugnum, og þótti það því nokkuð kyndugt þegar hann bauð sig fram gegn Jonathan.

Það að Nígeríumenn hafi ákveðið að treysta Buhari á ný fyrir stjórnartaumunum eru þó ekki síður tíðindi í ljósi þess að þetta er í fyrsta sinn sem sitjandi forseti nær ekki endurkjöri í Nígeríu. Ýmsar ástæður hafa verið nefndar fyrir þessu óláni Goodluck Jonathan.

Sú sem er kannski ánægjulegust fyrir utanaðkomandi er sú staðreynd að kosningasvindl mun hafa verið í algjöru lágmarki að þessu sinni, en líklega hefur langvarandi barátta við Boko Haram og dvínandi efnahagur Nígeríu átt meiri þátt í því að nígerískir kjósendur ákváðu að svipta Lýðræðisflokk Jonathans völdum eftir 16 ár við stýrið.

Buhari bíða ýmsar áskoranir, nú þegar hann býst til að leiða fjölmennasta ríki Afríku. Fyrst og fremst verður það hlutverk hans að tryggja öryggi Nígeríu á ný eftir hörmungar síðustu ára. Víst er að þar skortir hann ekki reynslu. Það er þó vonandi að valdatíð Buharis að þessu sinni verði meira í takt við lýðræðið en í fyrra sinnið og að kosningar haldi áfram að ráðast af vilja kjósenda, sem ekki er sjálfgefið í þessum heimshluta.