Náttúruhlauparar Elísabet Margeirsdóttir og Birkir Már Kristinsson í Öskjuhlíðinni í gær.
Náttúruhlauparar Elísabet Margeirsdóttir og Birkir Már Kristinsson í Öskjuhlíðinni í gær. — Morgunblaðið/Þórður
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Elísabet Margeirsdóttir, næringarfræðingur og ofurhlaupari, þekkir þá nautn vel sem fylgir hlaupum í náttúrunni, en hún verður nýr leiðbeinandi á námskeiði Arctic Running og 66° Norður um náttúruhlaup, sem hefst eftir páska.

Í náttúruhlaupum er hlaupið á stígum eða slóðum úti í náttúrunni. „Það sem gerir þau sérstök er að fólk nýtur náttúrunnar á hlaupum,“ segir Elísabet. „Við leggjum hvorki áherslu á hraða eða keppni heldur að vera á hlaupum úti í náttúrunni.“

Hlaupari í áratug

Elísabet byrjaði að hlaupa götuhlaup fyrir um áratug. Hún segist hafa byrjað á því að skokka sem algjör áhugamanneskja, fljótlega tekið þátt í 10 km hlaupi, síðan hálfmaraþoni og maraþoni fyrir 10 árum. „Fyrir um fimm árum byrjaði ég smátt og smátt að færa mig úr venjulegum götuhlaupum yfir í það að hlaupa utan vega í náttúrunni mér til skemmtunar og eins til þess að taka þátt í öðruvísi keppni,“ rifjar hún upp. „Eftir að ég kynntist utanvegahlaupum hef ég fundið mína ástríðu, upplifað svo magnaða hluti að það verður erfitt að snúa aftur í götuhlaupin. Sumrin eru algjör hátíð, því þá gefst tækifæri til þess að hlaupa víða og sjá nýja staði og nýtt umhverfi.“

Undanfarin sjö ár hefur Elísabet séð um veðurfréttir á Stöð 2 en tók síðustu vaktina sl. sunnudag. Á næstunni snýr hún sér þar að nýju hlutverki, byrjar með þátt í nýrri útgáfu af Íslandi í dag um útivist og áskoranir, þar sem hlaup verða áberandi, en frítíminn hefur að mestu farið í hlaup. „Lífið snýst mikið um hlaup og ég er alltaf með einhver hlaupatengd verkefni á prjónunum,“ segir hún. Fyrir um ári gaf Forlagið út bókina Út að hlaupa eftir Elísabet og Karen Kjartansdóttur. Undanfarin þrjú ár hefur hún skipulagt keppnishlaup á Esju, Mt. Esja Ultra, og fer það fram í fjórða sinn í júní. „Það er náttúruhlaup í sinni bestu mynd, keppni með vegalengdum fyrir alla, bæði fyrir skemmtiskokkara og þá sem eru dottnir í ofurhlaupin,“ segir hún.

Elísabet leggur áherslu á að það sé fyrst og fremst vaninn sem haldi henni við efnið og hvað hlaupin séu gefandi. „Hlaup eru mjög góð leið til þess að leysa flækjur,“ segir hún. „Hugmyndaflugið fer af stað og um leið eru hlaup róandi fyrir hugann, ef það þarf að leysa mörg vandamál. Þegar þú kemur aftur inn líturðu þau öðrum augum. Maður nær fram ákveðinni hugleiðslu og sérstaklega þegar hlaupið er úti í náttúrunni, fjarri skarkala borgarinnar.“

Námskeið í 10 vikur

Arctic Running, sem sérhæfir sig í hlaupaferðum um náttúru Íslands og Grænlands, og 66° Norður standa fyrir 10 vikna námskeiði um náttúruhlaup og er þátttaka opin öllum almenningi. Kynningarfundur verður haldinn hjá 66° Norður í Fákafeni 12 í Reykjavík nk. þriðjudag, 7. apríl, og hefst hann kl. 20. Námskeiðið hefst síðan kl. 9 laugardaginn 11. apríl og verður hlaupið saman vikulega til 20. júní.

Hlaupnar verða mismunandi leiðir í íslenskri náttúru á höfuðborgarsvæðinu og í jöðrum þess. Æfingar eru sérhannaðar fyrir hlaup í náttúrunni. Þátttakendum verður skipt í þrjá hópa eftir getu og þörfum. Birkir Már Kristinsson, sjúkraþjálfari og hlaupari, hefur umsjón með byrjendum og fólki með litla reynslu en Elísabet Margeirsdóttir, næringarfræðingur og ofurhlaupari, leiðbeinir vönum hlaupurum.