Spaugari Trevor Noah.
Spaugari Trevor Noah. — AFP
Tilkynnt hefur verið um eftirmann Jons Stewart sem stjórnanda sjónvarpsþáttanna The Daily Show. The New York Times greinir frá því að grínistinn Trevor Noah taki við keflinu. Hann er 31 árs gamall og ættaður frá Suður-Afríku.

Tilkynnt hefur verið um eftirmann Jons Stewart sem stjórnanda sjónvarpsþáttanna The Daily Show. The New York Times greinir frá því að grínistinn Trevor Noah taki við keflinu. Hann er 31 árs gamall og ættaður frá Suður-Afríku. Noah er tiltölulega óþekktur í Bandaríkjunum, en hefur nokkra reynslu af sjónvarpsþáttagerð og var m.a. stjórnandi kvöldþáttar í heimalandi sínu. Hann kom til liðs við The Daily Show í desember sl. og hefur verið með þrjú innslög í þættinum. Í fyrsta innslagi sínu gerði hann grín að vaxandi spennu vegna kynþáttafordóma í Bandaríkjunum og sagði m.a.: „Ég hélt aldrei að ég myndi verða hræddari við lögregluna í Bandaríkjunum en í Suður-Afríku.“

Jon Stewart tilkynnti í janúar sl. að hann hygðist draga sig í hlé, en hann hefur stýrt The Daily Show sl. 16 ár. Ekki hefur enn verið tilkynnt hvenær síðasti þáttur Stewart fer í loftið, en talið er að framleiðendur þáttanna vilji gefa Noah færi á að venjast stjórnendahlutverkinu vel áður en næstu forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum.

„Ég er afar ánægður fyrir hönd þáttarins og samgleðst Trevor,“ segir Stewart í skriflegri yfirlýsingu. „Hann er frábær og hæfileikaríkur spaugari sem við höfum notið þess að vinna með.“