Ellert Ólafsson
Ellert Ólafsson
Eftir Ellert Ólafsson: "Á næstu árum munu eiga sér stað byltingarkenndar breytingar í kennsluaðferðum og námsefni um allan heim."

Um aldamótin 1900 var Guðmundur Finnbogason, sálfræðingur og heimspekingur, ráðgjafi stjórnvalda í menntamálum.

Guðmundur kynnti sér rækilega skólamál og menntastefnur á Norðurlöndum og Fræðslulögin árið 1907 eru að miklu leyti sniðin eftir riti Guðmundar, Lýðmenntun.

Þessi lög voru í takt við tímann og risavaxið framfaraskref í skólastarfi á Íslandi. Guðmundur hélt því fram að gott skólakerfi væri undirstaða blómlegs og fagurs mannlífs og lagði áherslu á gagnsemi námsins.

Jörgen L. Pind prófessor skrifaði frábæra bók um ævi og störf Guðmundar árið 2006.

Nú, rúmri öld seinna, er skollin á þekkingarbylting sem er ævintýri líkust og þar eru netið, upplýsingaveitur og nútíma miðlunartækni í lykilhlutverki.

Fjölbreytt atvinnu- og skólastarf í dag þarfnast nýrrar menntastefnu sem tekur fullt tillit til breyttra atvinnuhátta og stafrænu byltingarinnar.

Upplýsingabyltingin og alþýðumenntun

Nú er menntastefnan aftur á krossgötum og taka þarf djarflegar og framsýnar ákvarðanir til að staðna ekki í sama farinu.

Á næstu árum munu eiga sér stað byltingarkenndar breytingar í kennsluaðferðum og námsefni um allan heim. Námsefni kostar aðeins 2% af rekstri skólanna sem er allt of lágt hlutfall og heldur niðri nauðsynlegum framförum og nýsköpun í skólastarfi.

Kennslusérfræðingar telja að leikir, kennsluforrit og ský muni skipa veglegan sess í skólastarfi framtíðarinnar.

Gert er ráð fyrir að á næstu 20 árum muni stafræn tækni leysa af hólmi helminginn af öllum störfum sem stunduð eru í dag. Nú þegar er fjölmennasta atvinnustéttin í Stokkhólmsborg forritarar.

Rafbækur í skólastarfi spara fjármuni og auka afköst og eru nú orðnar algengar um allan heim.

Í mörg ár hafa leikskólar notað spjaldtölvur með góðum árangri og má þar nefna Sollentuna-skólann í Stokkhólmi sem er besti skólinn þar í landi. Hjallastefnan hér er einnig í fremstu röð á þessu sviði og árangurinn er eftir því.

Heiðarskóli í Reykjanesbæ og Norðlingaskóli í Reykjavík eru í fararbroddi í notkun spjaldtölva og upplýsingatækni í grunnskólum hér á landi. Þessir skólar státa af reyndum kennurum og framsýnum skólastjórnendum. Reynslan af þessum tilraunum með spjaldtölvur í Norðlingaskóla var könnuð af kennslusérfræðingum HÍ og niðurstaðan er afar jákvæð.

Íslenska skólakerfið er að mestu leyti góðviljuð ríkiseinokun þar sem öll hvatakerfi eru tekin úr sambandi.

Til að bæta ástandið telur höfundur að fjórðungur skólakerfisins þurfi að vera rekinn sem „non profit“-stofnanir sem eru reknar af ýmsum áhugahópum og einkaaðilum. Þá munu kjör og virðing kennara batna og verða eins og þeir eiga skilið.

Hvers vegna eru unglingar ólæsir?

Í nýlegri könnun í Svíþjóð var rannsakað sambandið milli menntunar foreldra og réttar barna til að fá inngöngu í framhaldsskóla. Niðurstaðan var afar athyglisverð:

Könnunin leiddi í ljós að árangur barna á grunnskólaprófi fer að mestu leyti eftir menntun foreldranna.

95% af börnum sem áttu háskólamenntaða foreldra náðu lágmarkseinkunn til að komast í framhaldsskóla.

Fyrir börn sem áttu foreldra með framhaldsskólamenntun var hlutfallið 85% en aðeins 58% barna sem áttu foreldra með grunnskólamenntun komust áfram.

Þetta sannar ljóslega að samband foreldra og barna og hvatning og hjálp foreldra er stærsti áhrifavaldurinn í velgengni barna í skólanámi.

Foreldrar eru bestu og ódýrustu kennararnir

Bresk rannsókn sýnir að ef foreldrar kenna 3-5 ára barni sínu að lesa með iPad eða samsvarandi tæki þá verða framfarirnar miklu hraðari en með hefðbundinni aðferð og um leið verða fjölskylduböndin sterkari og ánægjulegri.

Fyrir nokkrum áratugum var lestrarkennsla algengur heimilisiðnaður hér á landi en þar kenndu eldri borgarar börnum að lesa gegn hóflegu gjaldi. Þetta gafst afbragðsvel og eldri kynslóðin hafði einnig þroskandi áhrifa á unga fólkið. Ég er mjög hlynntur því að lífsgæðahjólinu sé snúið ögn til baka og notuð reynsla eldra fólks sem er vannýtt auðlind.

Stærðfræði í takt við tímann

Á síðasta ári kom fram á sjónarsviðið afar skelegg og gagnrýnin skýrsla frá háskólakennurum um stærðfræðikennslu í skólum.

Doktorsritgerð Bjargar Jóhannsdóttur um kennaramenntun í stærðfræði sýnir að faglegt nám er of takmarkað og megináherslan lögð á kennslufræði. Því má bæta við að kennsla í eðlisfræði er svo fátækleg í grunnskólum að skammarlegt er. Stærðfræði er sú námsgrein í skólum þar sem upplýsingatækni er minnst notuð.

Nauðsynlegt er að búa til nýja hagnýta kennslugrein í grunn- og framhaldsskólum skólum sem heitir „stærðfræðinám með upplýsingatækni“.

Þessa grein á að kenna í öllum skólum og þá fá loksins allir nemendur gullið tækifæri til að kynnast vinnubrögðum framtíðarinnar.

Þar er nemendum kennt að leysa stærðfræðiverkefni með verkfærum sem notuð eru í dag en ekki fornöld.

Þessi námsgrein mun spara fjármuni og gera seinfærum nemendum kleift til að ná góðum árangri í náminu.

Höf. er verkfræðingur og framkvæmdastjóri.

Höf.: Ellert Ólafsson