Votviðri Lögð er til svokölluð „góðviðrislokun“ í stað sumarlokunar.
Votviðri Lögð er til svokölluð „góðviðrislokun“ í stað sumarlokunar. — Morgunblaðið/Heiddi
Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda á Laugavegi sendu frá sér ályktun í gær þar sem málflutningi Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs, í fréttum RÚV er mótmælt en hann lagði til að lokað yrði fyrir bílaumferð um Laugaveg frá 1.

Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda á Laugavegi sendu frá sér ályktun í gær þar sem málflutningi Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs, í fréttum RÚV er mótmælt en hann lagði til að lokað yrði fyrir bílaumferð um Laugaveg frá 1. maí til 1. október.

Í ályktuninni er gagnrýnt að rætt sé um lokun Laugavegar þegar kæra samtakanna um fyrri ákvörðun borgarinnar um lokun sé enn til meðferðar í innanríkisráðuneytinu. Ennfremur er lögð áhersla á aukið samráð. „Laugavegurinn er eina skilgreinda verslunargata borgarinnar og til mikils að vinna að verslun þar fáist þrifist. Það gerist ekki nema í góðu samráði við hagsmunaaðila og brýnt að formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar láti af skæruhernaði gegn atvinnulífi í borginni.“

Þá er lagt til í ályktuninni að greidd verði atkvæði meðal rekstraraðila og eigenda atvinnuhúsnæðis á svæðinu um lokun vegarins. Þá séu of miklir atvinnuhagsmunir og eignarréttindi í húfi til að ákvörðun af þessu tagi sé tekin einhliða af borgaryfirvöldum.

„Göngugata getur verið skemmtileg tilbreytni á sólríkum dögum, en í rigningu og sudda er engum til gagns að loka fyrir umferð. Möguleg lokun götunnar verður að vera á forsendum verslunarinnar sjálfrar.“