Viðar Guðjónsson
vidar@mbl.is
Laugardalsvöllur verður tilbúinn fyrir heimsókn Tékka í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu karla í júní þrátt fyrir að svæsin sveppasýking hrjái völlinn nú. Að sögn Kristins V. Jóhannssonar vallarstjóra eru um 30% af vellinum ónýt en eins og sakir standa er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því að völlurinn verði ekki kominn í lag þann 12. júní. „Völlurinn er mun betri en í fyrra en engu að síður náðum við að spila á vellinum 4. júní þegar við áttum landsleik þá,“ segir Kristinn. Hann segir að þegar tækifæri gefist til muni verða farið í framkvæmdir á vellinum auk þess sem sáð verður í þann hluta vallarins, sem er ónýtur, í apríl. Að sögn Kristins hafa aðstæður í vetur verið sveppnum hagstæðar. „Það hefur verið mikill raki í vellinum og snjór og bleyta til skiptis. Þá myndast góð skilyrði fyrir sveppasýkingu. Hann herjar svo á veika punkta á vellinum. Það er alltaf sveppasýking í gangi í jarðveginum en misjafnt hvort að utanaðkomandi aðstæður gera það að verkum að hún grasseri eins og hún hefur gert núna,“ segir Kristinn.