„Ég hef orðað það þannig að allir fóru að vinna í snjallsímunum en skildu þá Xbox og PlaySation eftir handa okkur,“ segir Burkni um samkeppnina.
„Ég hef orðað það þannig að allir fóru að vinna í snjallsímunum en skildu þá Xbox og PlaySation eftir handa okkur,“ segir Burkni um samkeppnina. — Morgunblaðið/Eggert
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Íslenski tölvuleikurinn Aaru's Awakening fer vel af stað og fangaði m.a. athygli afþreyingarrisans Sony. Tekjur af leiknum eru þegar meiri en þróunarkostnaður og fjárfestirinn búinn að fá allt sitt til baka „á mettíma“.

Í febrúar gaf íslenska tölvuleikjafyrirtækið Lumenox út leikinn Aaru‘s Awakening. Morgunblaðið sagði fyrst frá leiknum þegar hann var á frumstigum en alls hefur verkefnið tekið á þriðja ár.

Tölvuleikjabransinn þykir óvæginn og leikjaútgáfa mjög áhættusöm. Dæmið virðist hins vegar hafa gengið upp hjá Lumenox í fyrstu tilraun og segir Burkni J. Óskarsson framkvæmdastjóri að tekjur af leiknum séu þegar búnar að greiða upp framleiðslukostnaðinn.

Kostnaðinum haldið í skefjum

Kemur þetta meðal annars til af því að ekki þurfti að kosta miklu til við framleiðsluna. Á meðan stærstu tölvuleikirnir á markaðinum eru smíðaðir af teymum hundraða forritara og hönnuða og kosta hundruð milljóna og jafnvel milljarða í framleiðslu þá voru aðeins fjórtán manns sem komu að gerð Aaru‘s Awakening þegar mest var og vinnan borin uppi af fimmmenningunum á bak við Lumenox.

„Við tókum þetta á hnefunum framan af. Á endanum þurfti þó að fá utanaðkomandi fólk að verkefninu og borga því laun, svo við hófumst handa við að leita að fjármagni. Það gekk mjög illa, vægast sagt. Við fengum þó styrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og tókst svo loks að finna fjárfesti sem var tilbúinn að veðja á þetta. Hann er í dag búinn að endurheimta allt sem hann lagði út og það á mettíma,“ segir Burkni.

Aaru‘s Awakening varð fyrst til sem skilaverkefni í tölvuleikjagerðaráfanga í Háskólanum í Reykjavík. „Úr varð að skrá leikinn í keppni hjá IGI, samtökum íslenska tölvuleikjageirans, þar sem við bárum sigur úr býtum. Í kjölfarið ákváðum við að taka verkefnið lengra og stofnuðum fyrirtæki utan um framleiðslu leiksins í mars 2012.“

Aaru‘s Awakening hefur verið forritaður til spilunar á Windows, Apple og Linux stýrikerfum sem og leikjatölvum á borð við PlayStation og Xbox. Þetta kann að virðast óvenjulegt val, sérstaklega fyrir leik sem er ekki stærri í sniðum, og það nú þegar allir virðast keppa að því að smíða næsta smellinn fyrir snjallsíma. Þegar Burkni og félagar skrifuðu fyrstu línurnar af kóða voru leikir eins og Angry Birds að hala inn milljarða.

Burkni segir hins vegar að leikurinn henti ekki vel fyrir snertiskjái, en svo hafi líka komið í ljós að ákveðið tómarúm hafi myndast á markaði fyrir leikjatölvu- og PC-leiki. „Það er ótrúlegt að sjá hversu mikil tilfærsla varð í tölvuleikjageiranum þegar snjallsímabyltingin fór á skrið. Ég hef orðað það þannig að allir fóru að vinna í snjallsímunum en skildu þá Xbox og PlayStation eftir handa okkur.“

Leikurinn er nú fáanlegur í gegnum sölukerfi Steam og er væntanlegur á PlayStation 7. apríl næstkomandi. Í þessum orðum töluðum er leikurinn í tæknilegri skoðun hjá Xbox og væntir Lumenox svara frá þeim bráðlega um hvort grænt ljós verður gefið á útgáfu. „Við fengum blandaðar umsagnir fyrst eftir að leikurinn fór í loftið 23. febrúar en tókum okkur til og höfum lagað alla þá vankanta sem bent var á áður en leikurinn fer í dreifingu hjá PlayStation.“

Burkni segir það hafa verið hægara sagt en gert að koma leiknum á markað í gegnum leikjaveiturnar því nýir leikir verði að fara í gegnum strembið valferli. Ekki var nóg með að Aaru‘s Awakening fékk inni hjá leikjaveitunum heldur sóttist Sony eftir að kaupa dreifingarrétt leiksins á sínu kerfi. „Sony er með áskriftarpakka, PlayStation Plus, og gefur áskrifendum aðgang að ókeypis leikjum. Aaru‘s Awakening verður aðgengilegur í fimm vikur í gegnum þennan samning og verða um sjö milljónir manna sem geta þá sótt sér leikinn endurgjaldslaust.“

Sjö leikir í myndinni

Óhætt er að segja að Lumenox hafi farið vel af stað og á Burkna má heyra að mörg spennandi verkefni eru í burðarliðnum. „Samhliða Aaru‘s Awakening höfum við unnið að sjö ólíkum leikjum, þar af eru þrír sem eru nokkurn veginn komnir í sína endanlegu mynd og einn sem bíður nú þegar eftir að vera settur í almenna dreifingu í gegnum iTunes. Í júní munum við eiga fund með Sony og kynna fyrir þeim næsta verkefni sem við ætlum að fara í. Þeir vilja fá að heyra að hverju við stefnum næst og þá er alltaf möguleiki að þeir vilji taka þátt í framleiðslunni ef þeim líst vel á.“

Burkna dreymir ekki um að gera Lumenox að risavöxnu veldi, og segir hann að miklu skipti fyrir stofnendur fyrirtækisins að hafa listrænt frelsi og geta haft gaman af vinnunni. „Við viljum líka vinna þannig að við setjum okkur strangan tímaramma og skilum af okkur viðráðanlegum verkefnum á réttum tíma, frekar en að reyna að smíða næsta „Duke Nukem“ sem svo aldrei kemur út.“