Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Hægriöfgaflokkar virðast eiga undir högg að sækja í Bretlandi og talið er að stuðningurinn við þá meðal almennings hafi ekki verið jafnlítill í tæpa tvo áratugi. Þetta er einkum rakið til vandræða og sundrungar í tveimur stærstu öfgaflokkunum, Enska varnarbandalaginu (EDN) og Breska þjóðarflokknum (BNP). Talið er að þeir hafi misst fylgi til UKIP, Breska sjálfstæðisflokksins, sem hefur lagt áherslu á andstöðu við Evrópusambandið og vill takmarka fjölda þeirra sem fá landvistarleyfi í Bretlandi.
Fáir hafa sótt útifundi öfgahreyfinganna síðustu mánuði og mun fleiri hafa mætt á fundi sem andstæðingar þeirra hafa haldið á sama tíma til að mótmæla ofstækisstefnu þeirra í innflytjendamálum og hatri þeirra á múslímum. Þýska öfgahreyfingin PEGIDA reyndi að hasla sér völl í Bretlandi fyrr á árinu en mistókst það hrapallega.
Enska varnarbandalagið hefur átt undir högg að sækja frá því að leiðtogi þess, Stephen Lennon, sagði af sér fyrir rúmu ári vegna þess að honum þótti hreyfingin vera orðin of öfgafull. Nokkrir af forystumönnum hennar hafa látið í ljósi stuðning við fjöldamorð Anders Behring Breivik í Noregi árið 2011 þegar hann varð 77 manns að bana.
Stuðningurinn við Breska þjóðarflokkinn hefur einnig minnkað. Hann fékk yfir 50 sæti í breskum sveitarstjórnum í kosningum árið 2009 en þeim hefur nú fækkað í tvö, auk þess sem hann missti tvö þingsæti sín á Evrópuþinginu á síðasta ári. Leiðtoga flokksins, Nick Griffin, var þá vikið úr honum eftir að hafa farið fyrir honum í fimmtán ár.
Hætta stafar enn af öfgunum
Breska hreyfingin Hope not hate, sem berst gegn kynþáttahyggju, sagði í skýrslu fyrr á árinu að öfgaflokkarnir hefðu ekki verið jafnveikir í tæp 20 ár. Hreyfingin telur þó að Bretlandi stafi enn mikil hætta af öfgamönnum sem styðji flokkana og kunni að gera mannskæðar árásir eins og Breivik.Hreyfingin leggur áherslu á að UKIP sé ekki hægriöfgaflokkur en segir að hann höfði greinilega til fyrrverandi stuðningsmanna öfgahreyfinganna.
Forystumenn UKIP neita því að hann aðhyllist kynþáttahyggju og hafa bannað að fyrrverandi félagar í öfgahreyfingunum fái inngöngu í flokkinn. Tveir atkvæðamiklir menn í UKIP gengu í flokkinn áður en bannið var sett og þeim hefur verið leyft að starfa í honum.
UKIP hefur einnig refsað flokksmönnum fyrir að fara yfir strikið í yfirlýsingum sínum, m.a. fyrir að lýsa íslam sem krabbameini eða skora á vinsælan grínista úr röðum blökkumanna að flytja búferlum til „svarts lands“. Einn af frambjóðendum UKIP í þingkosningunum í maí dró framboð sitt til baka í vikunni sem leið vegna óánægju með kynþáttafordóma sem hann sagði viðgangast í flokknum.
Nigel Farage, leiðtogi UKIP, neitaði þessu. „Við erum opin fyrir margvíslegum skoðunum, erum með fólk sem er til vinstri, fólk sem er til hægri, fólk á öllum aldri, úr öllum stéttum, öllum kynþáttum,“ sagði Farage þegar hann hóf kosningabaráttuna á mánudaginn var.
Hvatti Ísraela til að
ræna Barack Obama
» Einn af frambjóðendum UKIP, Breska sjálfstæðisflokksins, Jeremy Zeid, hefur ákveðið að draga framboð sitt til baka eftir að hafa hvatt Ísraela til að ræna Barack Obama, forseta Bandaríkjanna.
» Jeremy Zeid tilkynnti ákvörðun sína eftir að hann birti yfirlýsingu á Facebook þar sem hann hvatti Ísraela til að ræna Obama eftir að hann lætur af embætti og „stinga honum í fangelsi fyrir að ljóstra upp ríkisleyndarmálum“ um kjarnavopn Ísraela.