2. apríl 1928 Jóhanna Magnúsdóttir fékk lyfsöluleyfi, fyrst íslenskra kvenna. Hún starfrækti Lyfjabúðina Iðunni í Reykjavík í tæp 33 ár. 2. apríl 1970 Bandaríski sendiherrann afhenti Kristjáni Eldjárn forseta tunglgrjót að gjöf frá Richard Nixon...

2. apríl 1928

Jóhanna Magnúsdóttir fékk lyfsöluleyfi, fyrst íslenskra kvenna. Hún starfrækti Lyfjabúðina Iðunni í Reykjavík í tæp 33 ár.

2. apríl 1970

Bandaríski sendiherrann afhenti Kristjáni Eldjárn forseta tunglgrjót að gjöf frá Richard Nixon forseta. Morgunblaðið sagði að þetta hefðu verið „fjórir smásteinar frá tunglinu, felldir inn í gegnsæjan plasthnapp sem er festur á viðarflöt ásamt íslenskum silkifána er var með í förinni þegar menn lentu á tunglinu í fyrsta sinn, 20. júlí 1969“.

2. apríl 1996

Rússneskur togari var tekinn við ólöglegar veiðar út af Reykjanesi, sá fyrsti síðan fiskveiðilögsagan var færð út í 200 mílur árið 1975.

2. apríl 2002

Útvarp Saga tók til starfa sem talmálsstöð, en áður hafði verið útvarpað íslenskri tónlist.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson