Húsnæði Rúm þrjú þúsund manns hafa ekki fengið úrlausn sinna mála.
Húsnæði Rúm þrjú þúsund manns hafa ekki fengið úrlausn sinna mála. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Rúmlega þrjú þúsund manns hafa ekki fengið úrlausn sinna mála vegna umsókna um leiðréttingu húsnæðislána. Um 105 þúsund manns sóttu um leiðréttinguna en rúmlega 101 þúsund manns hafa fengið afgreiðslu.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Rúmlega þrjú þúsund manns hafa ekki fengið úrlausn sinna mála vegna umsókna um leiðréttingu húsnæðislána. Um 105 þúsund manns sóttu um leiðréttinguna en rúmlega 101 þúsund manns hafa fengið afgreiðslu. Tryggvi Þór Herbertsson, sem stýrir verkefni skuldaleiðréttingarinnar, segir að tugir til hundraða umsókna séu afgreiddar á dag af þeim sem eftir standa. „Ástæðan fyrir því að ekki hefur tekist að klára þessi mál er sú að þau eru flókin og það þarf að kalla eftir frekari upplýsingum. Stundum þarf að vera í samskiptum við umsækjanda og það krefst aukalegrar vinnu,“ segir Tryggvi Þór. Um 30 manns vinna að skuldaleiðréttingunni hjá ríkisskattstjóra og segir Tryggvi að ein ástæðan fyrir töfunum sé sú að mannafli sé ekki nægur. Að sögn hans geta þessi mál sem eftir standa tekið allt að hálfan dag í vinnslu. Tryggvi býst við því að vinna að málunum sem eftir standa muni taka út mánuðinn, þó ekki sé útilokað að hún muni teygjast inn í maímánuð. Spurður segir Tryggvi Þór að málin séu ólík. „Við getum t.d. nefnt dæmi um dánarbú. Það getur kannski virkað einfalt en það eru margar tegundir dánarbúa. Í sumum tilvikum uppfyllir dánarbú t.d. ekki þau skilyrði að eftirlifandi sé maki eða börn undir 18 ára aldri,“ segir Tryggvi.

Forsendur geta breyst

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir að málin sem eftir eru séu öll handunnin.

Hann segir þau af ýmsum toga. Stundum beri ekki saman upplýsingum á framtali annars vegar og hjá fjármálafyrirtækjum hins vegar. Í einhverjum tilvikum er um að ræða glötuð veð og ekki fást upplýsingar um veð sem eru að baki lánunum. Áðurnefnd dánarbú er ein ástæðan en einnig getur verið um breytt skilyrði að ræða þar sem fólk hefur misst réttinn til höfuðstólslækkunar.

„Í sumum tilfellum kemur nýr maki sem kemur með aðrar forsendur inn í málið. Hann getur t.a.m. hafa fengið 110% leiðréttingu,“ segir Skúli og bætir við:

„Sumir hafa ekki svarað spurningum um tilteknar upplýsingar og fyrir vikið tefst afgreiðslan. Síðan eru t.d. aðilar sem þurfa að láta gera breytingar á framtali.“