[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Miðvörðurinn Glódís Perla Viggósdóttir undirbýr sig þessa dagana fyrir næstu undankeppni ásamt samherjum sínum í landsliðinu í fótbolta. Ísland mætir Hollandi í vináttulandsleik í Kórnum á laugardaginn klukkan...

Fótbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Miðvörðurinn Glódís Perla Viggósdóttir undirbýr sig þessa dagana fyrir næstu undankeppni ásamt samherjum sínum í landsliðinu í fótbolta. Ísland mætir Hollandi í vináttulandsleik í Kórnum á laugardaginn klukkan 14:00. Glódís kemur nú frá Svíþjóð til þess að taka þátt í landsliðsverkefninu en hún fluttist utan í janúar eftir að hafa samið til eins árs við Eskilstuna.

„Ég kem til með að flytja mig á milli staða þegar ég fer út aftur og þá stendur til að koma sér aðeins betur fyrir. Ég er með herbergisfélaga úr liðinu sem er sænsk landsliðskona. Það er mjög fínt og slekkur líklega aðeins á einmanaleikanum sem fylgir því að fara ein til útlanda,“ sagði Glódís þegar Morgunblaðið spurði hana hvernig gengi að koma sér fyrir. Eskilstuna er á svæði með liðlega 100 þúsund íbúum og Glódísi líst ágætlega á bæinn. „Mér finnst bærinn mjög kósí. Þó hann sé stærri en til dæmis Kópavogur þá virkar hann lítill á margan hátt sem mér finnst notalegt. Þarna er allt að finna á svæðinu.“

Viðbrigðin minni en búist var við

Glódís segir það vera stökk að fara úr Íslandsmeistaraliði yfir í efstu deild í Svíþjóð en segist þó hafa reiknað með því að viðbrigðin yrðu meiri.

„Stjarnan er mjög gott lið og þetta er því ekki eins stórt skref og ég bjóst við. Samt sem áður er mikill munur á deildunum og það er mjög jákvætt fyrir mig. Leikmennirnir eru betri og samkeppnin er meiri, sem er mikilvægt. Það er mjög fínt að vera hjá félaginu. Þjálfarateymið er frábært og völlurinn í mjög góðu standi. Auk þess er öllu reddað sem þarf að redda,“ sagði Glódís og hún segist finna fyrir væntingum til liðsins en segir þær þó vera hófstilltar þar sem liðið hafi komið upp í efstu deild í fyrra.

„Miklar væntingar eru gerðar til okkar en þar sem liðið var nýliði í efstu deild í fyrra þá ímynda ég mér að minni væntingar séu þó gerðar til okkar en margra annarra liða. Stundum getur verið auðvelt að fela sig á bak við það en við ætlum að standa okkur vel og ná góðum árangri. Innan okkar raða hefur verið talað um að markmiðið sé að komast í topp 5 og þá væntanlega að vera í hópi allra efstu liða á næstu árum. Það er enginn meðalmennsku-hugsunarháttur í gangi og við ætlum ekki bara að vera ánægðar með að spila í efstu deild,“ útskýrði Glódís Perla.

Allar taka ábyrgð í landsliðinu

Spurð út í landsliðið segir Glódís kynslóðaskiptin ganga áreynslulaust fyrir sig en þrátt fyrir að vera einungis tæplega tvítug þá hefur Glódís verið í landsliðinu undanfarin ár.

„Mér finnst allir taka ábyrgð og skila sínu. Þá verður þetta auðvelt og það er þægilegt að vera í þannig liði. Ég er mjög bjartsýn fyrir undankeppni EM því við erum með marga góða leikmenn. Mikil samkeppni er um stöðurnar í byrjunarliðinu og það gerir okkur að betra liði. Ég tel að það muni hjálpa okkur mjög í undankeppninni,“ sagði Glódís en enn liggur ekki fyrir með hvaða liðum íslensku konurnar verða í riðli. „Ég er orðin mjög spennt, ekki síst þar sem alltaf er verið að fresta því að draga í riðla. Það verður gaman að sjá hvaða liðum við mætum og við erum í efsta styrkleikaflokki sem er mjög jákvætt,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir í samtali við Morgunblaðið á landsliðsæfingu í gær.

Að spjallinu loknu tókst Glódísi að hlaupa undirritaðan uppi, þó snöggur sé, vegna þess að landsliðskonunni er mjög umhugað um að knattspyrnuunnendur fjölmenni í Kórinn á laugardaginn klukkan 14 og hvetji landsliðið til dáða gegn Hollendingum. Er því hér með komið á framfæri.