Aldís Katrín Guðlaugsdóttir fæddist 3. júní 1969. Hún lést 17. mars 2015. Jarðarför Aldísar fór fram 30. mars 2015.

Það er erfitt að kveðja þig litla systir.

En eftir erfiða baráttu í mörg ár er kominn tími á þína hvíld. Við gerðum margt gott saman Aldís, unnum saman í prentsmiðju Ísafoldar og svo lá leið okkar á DV.

Svo fluttir þú með strákana til Grindavíkur, það voru góðir tímar; að sjálfsögðu unnum við saman þar líka og áttum þar frábærar stundir. Gaman er að rifja upp allar útilegurnar sem við fórum í saman með fjölskyldum okkar.

Alltaf gat maður stólað á þig ef það vantaði eitthvað, þú varst mamman í hópnum og reddaðir öllu.

Manstu ferðalagið okkar frá Svíþjóð og niður til Ítalíu og það sem við lentum í þar. Á leiðinni stoppaði lögreglan okkur og lentum við í alls konar veseni. Þetta er tími sem ég mun aldrei gleyma. Bústaðarferðirnar okkar, Aldís, með fjölskyldu og vinkonum voru ógleymanlegar. Það var svo frábært þegar þið fluttuð til Grindavíkur, ég dró þig í slysavarnafélagið Þórkötlu og þar var nú oft gaman, t.d. þegar við vorum að selja nammi um sjómannahelgina á bryggjunni.

Ekki má nú gleyma ferðunum okkar í Þórsmörk og Kerlingarfjöll, þar var hlegið alla helgina út í eitt og við skemmtum okkur svakalega vel. Það verður skrítið að fara núna án þín, elsku Aldís, í þessar ferðir. Núna trúi ég því að þú sért komin á góðan stað og líðir vel. Þetta er búin að vera erfið og löng barátta en þú stóðst þig eins og hetja allan tímann, það eru forréttindi að eiga þig sem systur, kæra Aldís.

Takk fyrir allt, elsku systir, ég votta Ívari, Antoni og Hlyni mína dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.

Kær kveðja,

Ólöf.

Elsku kæra vinkona, nú er ljós þitt slokknað.

Þú kvaddir okkur svo allt of snemma, eftir hetjulega baráttu þína við illvígan sjúkdóm sem sigraði að lokum. Eftir sitjum við með sorg í hjarta og söknuð eftir einstaklega yndislegri, glaðværri og kærleiksríkri konu sem gaf svo mikið af sér. Full af bjartsýni og jákvæðni í gegn um öll þín veikindi barðist þú og sýndir okkur að það þýðir ekkert að gefast upp, ekkert er búið fyrr en það er búið. Ég dáist að eljusemi þinni og krafti, þú varst hetja af guðs náð.

Elsku kæra vinkona mín, þín er sárt saknað og minning þín mun lifa áfram í hjarta mér um ókomna tíð.

Elsku Ívar, Hlynur, Anton, Alla, Laugi og aðrir aðstandendur, við fjölskyldan biðjum góðan guð að veita ykkur styrk í sorg ykkar á þessum erfiðu tímum.

Hvíl í friði, elsku yndislega Aldís mín.

Þín vinkona,

Hulda.

HINSTA KVEÐJA
Elsku Aldís
Það er skrítið að hugsa til þess að þú sért farin. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér, frænka, þú hafðir alltaf góð ráð og ávallt var gott að leita til þín. Hugur minn og hlýja er hjá strákunum þínum, Ívari, Antoni og Hlyn á þessum erfiða tíma.
Innilegar samúðarkveðjur,

Tinna frænka.
Kæra frænka.
Það eru ekki til orð sem lýsa tilfinningum okkar til þín, elsku Aldís. Sorgardagur var þegar þú kvaddir okkur öll en sem betur fer var fjölskyldan saman komin hjá þér, elsku Aldís, og nú ert þú komin á góðan stað og líður vel. Við sendum ykkur, litla fjölskylda, hlýja strauma, kossa og knús.
Iðja mín í heimi hér
er huggun þess er grætur.
Þetta sagði sólin mér
og sorgin stóð á fætur.
(Ragnar Gröndal)
Tinna, Júlía og
Jón Bergmann.