Steingerður Þórisdóttir fæddist 9. febrúar 1935. Hún lést 12. mars 2015.

Jarðarför Steingerðar fór fram í kyrrþey.

Með nokkrum orðum langar mig að kveðja Steingerði æskuvinkonu móður minnar. Margar góðar minningar koma upp í hugann. Ein af þeim er ferðin norður í land sem fjölskyldurnar fóru saman seinni part sjöunda áratugarins. Dvalið var á Húsavík og ferðast um Norðurland og í minningunni er ferðin sveipuð ævintýraljóma. Samveran með Steingerði, Jóni og börnunum var yndisleg og það var mikið fjör og gaman.

Jólagjafirnar frá henni, Jóni og börnum eru minnisstæðar, jólaskeiðar nokkur jólin. Mér fannst það mjög fullorðins að fá svona skínandi fínar skeiðar. Í dag met ég þetta mikils. Alltaf eru skeiðarnar notaðar á hátíðisstundum og sóma sér vel á veisluborðum.

Samgangurinn á milli heimilanna var mikill og ef mamma var ekki heima, þá var oftast hægt að finna hana hjá Steingerði eða einhvers staðar úti í bæ með henni. Eftir að Steingerður veiktist hitti ég hana ekki oft. Mamma heimsótti hana reglulega og bar mér fréttir af henni.

Ég minnist Steingerðar sem skemmtilegrar og stórglæsilegrar konu, það var aldrei lognmolla í kringum hana og hún hló mikið. Hún sýndi mér og systkinum mínum mikla væntumþykju í uppvexti okkar og þakka ég fyrir það.

Á kveðjustundu sendi ég Jóni, börnum og fjölskyldum þeirra, ásamt Sveindísi, Sveini og þeirra fjölskyldum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Tárin mýkja og tárin styrkja.

Í þeim speglast fegurð minninganna.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Rósa Steinunn.

Nú þegar ég kveð æskuvinkonu mína Steingerði vakna margar góðar minningar. Vinátta okkar hófst í Vesturbænum fyrir 77 árum og stóð allt fram að andláti hennar. Á æskuárum okkar eyddum við átta sumrum saman í bústað fjölskyldu Steingerðar við Sogið. Þessi fyrstu ár bundumst við tryggum vinaböndum sem hafa staðið síðan. Alla tíð voru samskipti okkar góð og mikil og bjuggum við í Fossvoginum í nágrenni hvor við aðra í áratugi.

Í gegnum tíðina höfum við átt margar góðar stundir saman og vil ég nefna ferðina og dvölina á Húsavík og víðar um Norðurland með fjölskyldum okkar. Eins er mér minnisstætt þegar ég heimsótti Steingerði og fjölskyldu til Borås og seinna ferðina til Steinu og Frosta í Svíþjóð, sem við Steingerður fórum saman í.

Steingerður var afburðakokkur og töfraði fram flottustu veislur. Ekki var hún síðri í bakstrinum og sérrítertan var vinsæl og bökuð oft. Og snitturnar voru ekki fáar í gegnum tíðina sem við smurðum saman í Búlandinu og Kjalarlandinu fyrir veislur innan fjölskyldunnar.

Steingerður varð fyrir alvarlegu áfalli fyrir 22 árum. Eftir það dvaldi hún að mestu í Skógarbæ. Vinátta okkar hélst áfram með tíðum heimsóknum mínum til hennar þar en einnig á Sléttuveginn.

Fjölskyldu Steingerðar þakka ég góða og mikla vináttu í gegnum tíðina.

Steingerði mína elskulegu vinkonu kveð ég með trega í hjarta og þakka henni fyrir allt.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Vald. Briem)

Hvíl í friði.

Þín

Guðný.