Körfubolti
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
„Það lá fyrir að það gæti orðið mjög mjótt á mununum í tveimur einvígjanna þar sem deildin var hnífjöfn frá þriðja og niður í níunda sæti og það hefur komið á daginn,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs í Þorlákshöfn, þegar Morgunblaðið bað hann að velta fyrir sér oddaleikjunum tveimur í fyrstu umferð úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik sem fram fara í kvöld.
Haukar og Keflavík mætast á Ásvöllum klukkan 16 og Njarðvík tekur á móti Stjörnunni klukkan 19. Í báðum einvígjum er staðan jöfn, 2:2. Keflavík komst í 2:0 gegn Haukum, sem síðan jöfnuðu metin, en allir fjórir leikir Njarðvíkur og Stjörnunnar hafa endað með naumum heimasigri.
„Það er líka ánægjulegt að við skulum fá tvo oddaleiki strax í átta liða úrslitunum. Þetta er það sem allir vonast eftir en í fyrra fór t.d. ekkert einvígi í allri úrslitakeppninni í oddaleik,“ sagði Benedikt en hans menn í Þór féllu út fyrir Tindastóli í þremur leikjum.
Hrikalega skemmtilegt einvígi
„Einvígi Njarðvíkur og Stjörnunnar er búið að vera hrikalega skemmtilegt. Það er mjög lítill munur á liðunum og „stór play“ í lok leikjanna hafa ráðið úrslitum. Ég held að heimavöllurinn ráði áfram og spái því Njarðvík sigri en það eru engin vísindi á bakvið það.Bæði lið eiga fullt erindi í undanúrslitin og það verður afar svekkjandi fyrir það lið sem fellur út að ná ekki lengra. Vonbrigðin verða mikil, enda ætla þau bæði sér stóra hluti. En svona er fyrirkomulagið, deildin er svo jöfn og breiddin góð að það verður hlutskipti annars liðsins að falla út,“ sagði Benedikt.
Hvaða leikmenn geta gert útslagið í lok leiksins?
„Stefan Bonneau er magnaður hjá Njarðvík og hefur verið nánast óstöðvandi og hjá Stjörnunni er Justin Shouse alltaf líklegur til að gera eitthvað í lokin. En málið er að það eru bara svo margir góðir leikmenn í þessum liðum, sem geta tryggt sigurinn. Við sáum bara hinn magnaða varnarleik Tómasar Hilmarssonar Stjörnumanns í síðasta leik,“ sagði Benedikt.
Algjörlega 50/50 leikur
„Eftir að Keflvíkingar komust í 2:0 hélt ég að þeir myndu klára þetta. Mér sýndist þetta ætla að fara á sömu leið hjá Haukum og í fyrra þegar þeir hefðu getað unnið alla leikina gegn Njarðvík en töpuðu samt einvíginu 0:3. Þeir gátu líka unnið tvo fyrstu leikina við Keflavík en töpuðu þeim í lokin. Þeim hefur hinsvegar tekist að snúa þessu heldur betur við og leikurinn á Ásvöllum er algjörlega 50/50, að mínu mati,“ sagði Benedikt.Hvaða leikmenn geta gert útslagið í þessum leik?
„Ef Keflvíkingar verða með Guðmund Jónsson heilan heilsu þá getur hann ráðið úrslitum. Hann er geysilega mikilvægur í svona leik, og ef hann getur beitt sér tel ég að Keflavík muni sigra. En ef hann glímir áfram við bakmeiðslin þá reikna ég með því að Haukar vinni leikinn.
Hjá Haukum væru það Haukur Óskarsson og Kári Jónsson sem gætu haft það sem þarf til að tryggja sigur í lokin. Ef þeir hitta vel eru þeir báðir svona „X-factorar“ fyrir Haukana.
Með þessu er kannski mikil ábyrgð sett á herðar Kára, strák sem er rétt búinn með grunnskólann, en hann er bara svo hæfileikaríkur og flottur að hann getur vel axlað hana. Emil Barja og Alex Francis munu alltaf skila sínu en hinir tveir geta unnið leikinn fyrir Hauka, og þar með einvígið,“ sagði Benedikt Guðmundsson.
Möguleikarnir
» KR vann Grindavík 3:0 og Tindastóll vann Þór frá Þorlákshöfn 3:0.
» Haukar og Keflavík mætast kl. 16 og Njarðvík mætir Stjörnunni kl. 19.15.
» Ef Keflvíkingar slá Hauka út mæta þeir KR og þá leikur Tindastóll við Njarðvík eða Stjörnuna.
» Ef Haukar slá Keflvíkinga út mæta þeir Tindastóli og þá leikur KR við Njarðvík eða Stjörnuna.
» Keflavík getur bara mætt KR og Haukar geta bara mætt Tindastóli.