David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, lentu á grillinu hjá hinum óvægna sjónvarpsmanni Jeremy Paxman í seinustu viku.
Ég hef í gegnum tíðina reynt að fylgjast með sambærilegum kappræðum hér á landi, en yfirleitt gefist upp eftir stutta stund. Ég fylgdist hins vegar dolfallinn með kappræðunum þarna ytra allan tíma. Það er í raun ótrúlegt, ef ekki sorglegt, að hugsa til þess hvað við erum aftarlega á merinni þegar kemur að þessum málum. Það er ekki nóg með að sjálfir stjórnmálamennirnir bresku hafi verið snjallari í tilsvörum, heldur voru spyrlarnir og áhorfendur í sal með allt sitt á hreinu.
Það er annars ekki að ástæðulausu að Paxman sé kallaður hrellir breskra stjórnmálamanna. Hann hikar ekki við að grípa fram í fyrir þeim þegar honum sýnist, sem gerir kappræðurnar vitaskuld líflegri, en hann er kannski ekki alltaf málefnalegur, eins og þegar hann eggjaði Miliband til að svara því hvort hann væri maður til að vera forsætisráðherra.
„Er ég nógu harður? Fjandinn já! Ég er nógu harður til að vera forsætisráðherra,“ svaraði Miliband.
Kristinn Ingi Jónsson