Bergsteinn Ragnar Magnússon fæddist 1. mars 1941. Hann lést 20. febrúar 2015.

Útför Bergsteins fór fram 5. mars 2015.

Stundin líður, tíminn tekur,

toll af öllu hér,

sviplegt brotthvarf söknuð vekur

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig,

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

(Hákon Aðalsteinsson)

Mig langar í örfáum orðum að kveðja kæran æskuvin minn Bergstein Ragnar Magnússon. Bergsteinn var drengur góður. Við kynntumst í Val á Hlíðarenda. Hann var aðeins eldri heldur en ég, en það kom alls ekki að sök því í huga Steina vorum við allir jafnir, Friðriksdrengir, sem sátum með séra Friðrik í gamla félagsheimilinu að Hlíðarenda. Hann var vinamargur og voru vinirnir aldrei langt undan, gleðin var honum í blóð borin. Þær eru elskulegar allar minningarnar sem ég get yljað mér við nú frá árunum á Hlíðarenda.

Þegar árin liðu urðu samskiptin strjálli eins og gengur, enda flutti Steini með fjölskyldu sína til Svíþjóðar atvinnuleysisárið 1968 og bjó þar eftir það fyrst í Malmö en lengst bjó hann í Helsingborg.

Steini var í gullaldarliði Vals 1965, þá urðu hann og félagar hans bikarmeistarar og árin 1966 og 1967 urðu þeir Íslandsmeistarar, þetta eru okkur eldri félögunum ógleymanlegur tími.

Þó Steini byggi erlendis meira en helming ævi sinnar þá var hugur hans alltaf á Hlíðarenda þar sem hann átti mörg handtök við smíði gamla íþróttahússins ásamt föður sínum og eldri félögum hans.

Við Steini endurnýjuðum vinskap okkar að nýju fyrir nokkrum á Facebook, þá kom svo vel fram hvaða tilfinningar hann bar til Vals og Hlíðarenda

Við hugsum um tilgang lífsins, örlög okkar allra og um hvert stefnir við fráfall ástvina okkar og óvissa ríkir í huga okkar um stund.

Þegar að er gáð er dauðinn ekki aðeins dauði og lífið ekki aðeins líf, heldur er því stundum öfugt farið, dauðinn aðeins áframhaldandi líf og lífið stundum harðara en hel.

Af hverju er þetta svo? Ég á ekki eitt svar til við því, en hef samt skilið, að þeir sem við elskum eru alltaf hjá okkur, í einhverri mynd, og veita okkur styrk í sorginni. Á tímamótum sem þessum öðlast kærleikurinn aukið gildi. Sama er að segja um þá sem elska okkur. Þeir halda áfram, hvert sem leið þeirra liggur, því ástin er sterkari en dauðinn og það sem lifir í minningunni eigum við áfram. Það verður aldrei frá okkur tekið.

Á meðan hjörtun mild og góð

minning örmum vefur

þá fær að hljóma lífsins ljóð

og lag sem tilgang hefur.

(Kristján Hreinsson)

Ég bið góðan guð að styrkja alla ástvini þína, og veit að ég ber þér kveðju margra Valsmanna.

Hvíl þú í friði, gamli vinur.

Sigurður Snævar Gunnarsson.