Sjávarútvegur
Íslenski sjávarklasinn efndi í gær til opnunarhátíðar og Nýsköpunarmessu í tilefni af stækkun Húss sjávarklasans að Grandagarði 16 nú þegar þriðji áfangi hússins var tekinn í notkun. Um 400 manns sóttu opnunina.
Nokkur ný fyrirtæki hafa bæst í hóp leigjenda í Húsi sjávarklasans og tóku þau þátt, ásamt fjölda annarra fyrirtækja sem tilheyra samstarfsneti Íslenska sjávarklasans. Fyrirtækin sýndu vörur sínar og nýsköpun.
Hús sjávarklasans hýsir allt frá nýsköpunarfyrirtækjum, sem eru að stíga sín fyrstu skref, í útibú rótgróinna fyrirtækja. Um er að ræða fyrirtæki í fiskeldi, fisksölu, sjávarútvegstækni, hugbúnaði, hönnun, líftækni, snyrtivörum og ýmsu öðru sjávartengdu. Hús sjávarklasans er samfélag um 50 fyrirtækja og vettvangur fyrir þau að skapa saman ný verðmæti. Sett hefur verið upp ný vefsíða Húss sjávarklasans á slóðinni www.hussjavarklasans.is.