Davíð Heimisson fæddist 29. júlí 1981. Hann lést 10. mars 2015.

Útför hans fór fram frá Hveragerðiskirkju 20. mars 2015.

Mikið óskaplega getur tilveran verið óskiljanleg. Það er svo óraunverulegt að sitja og skrifa þessi fátæklegu orð um elsku Davíð.

Ég kynntist Davíð þegar ég flutti í Hveragerði 12 ára gömul. Fyrsta skóladaginn kynntist ég Söndru minni og vorum við vægast sagt límdar saman upp frá því. Tveimur árum seinna breyttist saklaus koss þeirra á milli í 18 ára ævintýri. Sandra og Davíð. Ef eitthvað var fastur punktur í tilverunni minni þá voru það alltaf Sandra og Davíð. Nú ganga elsku Sandra mín og fallegu börnin þeirra Davíðs í gegnum þennan óraunverulega missi sem engin tök eru á að skilja.

Minningar síðustu 20 ára streyma fram og einhvernveginn eru það litlu hlutirnir sem koma aftur og aftur fram í hugann. Þegar við héngum saman í eldhúsinu í Heiðarbrúninni að spjalla. Þegar við fórum á öll sveitaböllin þar sem ég og Sandra sátum aftur í bílnum og sungum hástöfum með Metallica og Creed. Á Sölvaballinu þegar þú reyndir að pimpa mig út.

Hvernig þú spurðir mig alltaf hvort ég væri á leiðinni í trúðaskóla þegar ég kom fullbúin og uppstríluð til Söndru á leiðinni út á lífið. Hvernig þú bauðst mér alltaf einn kaldan þegar ég kom heim til ykkar.

Hvernig við rifumst um Liverpool og United og hvernig við gerðum grín hvert að öðru þegar öðru liðinu gekk illa. Hvernig þú notaðir hvert tækifæri til að stríða mér á góðlátlegan hátt. Svarta dúnúlpan með glansandi rauða axlaskrautinu sem við gerðum óspart grín að, Buffalo-skórnir þínir sem við gerðum ennþá meira grín að. Öll spjöllin sem við áttum á yngri árum um alvöru lífsins eða nákvæmlega ekki neitt.

Fallega brúðkaupið ykkar Söndru, þar sem ég fékk þann heiður að vera veislustjóri, er dýrmæt minning. Við Martin erum búin að hlæja endalaust að undirbúningnum þar sem Sandra fór hamförum en þú varst nú ekki á því að skilja allt þetta havarí. Sagan af sérmerktu glösunum sem þú varst svo stórhneykslaður á hefur verið sögð í óteljandi skipti og alltaf hlegið jafn mikið.

Elsku hjartans Davy minn. Mikið er skrýtið að koma heim til ykkar Söndru og heyra þig ekki segja „blessuð gamla“. Mikið er skrýtið að keyra í gegnum Hveragerði þar sem allt er eins, en samt er allt breytt.

Fallega ævintýrið ykkar Söndru skilur eftir sig þrjá yndislega demanta sem eru svo sannarlega ljósgeislar í þessu óskiljanlega skammdegi.

Elsku hjartans Söndru minni, Birtu Marín, Bjarna Marel, Manúellu Berglindi og öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna fráfalls elsku Davíðs votta ég samúð frá mínum dýpstu hjartarótum.

Elsku Davíð minn, ég er ekki búin að gleyma loforðinu sem ég gaf þér fyrir 10 árum síðan... og elsku Davy minn, You'll Never Walk Alone.

Þín vinkona, alltaf.

Heiða Rún Sveinsdóttir.

Elsku Davíð okkar, stórt skarð er höggvið í vinahópinn, ofsalega er sárt að hugsa til þess að við munum aldrei hitta þig aftur. Alltaf varstu boðinn og búinn til að aðstoða okkur, ekkert var mál fyrir þig. Maður er enn ekki alveg búinn að ná utan um það að þú sért farinn frá okkur. Það er tómlegt um að líta í hesthúsahverfinu en oft var hlegið og talað um allt milli himins og jarðar, þó aðallega hross. Elsku vinur, við erum þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í þínu lífi en mikið er sárt hvað þú ert tekinn allt of fljótt frá okkur.

Elsku Sandra, Birta Marín, Bjarni Marel, Manúella Berglind og aðrir aðstandendur, við vottum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Janus og Katrín.