Framleiðsla Beðið eftir því að mjaltaþjónninn taki til starfa.
Framleiðsla Beðið eftir því að mjaltaþjónninn taki til starfa. — Morgunblaðið/Kristinn
Heldur líflegra var yfir uppboðsmarkaði á mjólkurkvóta í gær en á síðasta viðskiptadegi sem var 1. september sl. Viðskipti voru þó ákaflega lítil. Viðskiptaverðið hækkaði um 10 krónur á lítrann.

Heldur líflegra var yfir uppboðsmarkaði á mjólkurkvóta í gær en á síðasta viðskiptadegi sem var 1. september sl. Viðskipti voru þó ákaflega lítil. Viðskiptaverðið hækkaði um 10 krónur á lítrann.

Matvælastofnun fékk 17 tilboð frá bændum um kaup eða sölu á mjólkurkvóta. Átta vildu selja en níu kaupa. Er þetta mikil breyting frá síðasta viðskiptadegi þegar aðeins einn bóndi vildi selja.

Boðnir voru 343 þúsund lítrar en óskað eftir kaupum á 610 þúsund lítrum. Jafnvægisverð reyndist vera 150 krónur á lítra sem er 10 krónum hærra en var á markaðnum í haust. Aðeins mun þó framleiðsluréttur á 168 þúsund lítrum skipta um hendur á þessu verði.

Breyttar aðstæður

Aðstæður á markaði hafa breyst verulega á síðustu árum. Kvótinn var eftirsóttur þegar hann var takmarkandi á framleiðsluna og bændur gátu látið beingreiðslur standa undir fjárfestingunni að hluta. Nú greiða afurðastöðvar sama verð fyrir alla mjólk, hvort sem hún er innan eða utan kvóta, vegna þess að mjólk vantar til vinnslu.

Kvótaverðið fór hæst í 320 kónur í ársbyrjun 2011 en var komið niður í 140 krónur í lok síðasta árs.

Landssamband kúabænda telur að tilboðsmarkaður Mast þjóni ekki tilgangi sínum við núverandi aðstæður og hafa óskað eftir því við landbúnaðarráðherra að hann verði gerður óvirkur um tíma. Þá stefnir allt í það að horfið verði frá kvótakerfinu á næstu árum. Landbúnaðarráðherra hefur enn ekki orðið við beiðni kúabænda um að hvíla kvótamarkaðinn. helgi@mbl.is