Metnaður Erlendur Ágúst Stefánsson er metnaðarfullur í körfubolta.
Metnaður Erlendur Ágúst Stefánsson er metnaðarfullur í körfubolta.
„Þetta hefur blundað í mér lengi. Ég ætla að fara í þjálfunarfræði sem er til dæmis góður grunnur fyrir nám í sjúkraþjálfun,“ segir Erlendur Ágúst Stefánsson, nemi í körfuboltaakademíu FSu.

„Þetta hefur blundað í mér lengi. Ég ætla að fara í þjálfunarfræði sem er til dæmis góður grunnur fyrir nám í sjúkraþjálfun,“ segir Erlendur Ágúst Stefánsson, nemi í körfuboltaakademíu FSu. Hann stefnir á að fara í háskólanám í Bandaríkjunum í haust á fullum skólastyrk og spila körfubolta. Í vor útskrifast Erlendur af náttúrufræðibraut en hann er einnig búinn með grunndeild rafiðnaðar. Erlendur hefur verið í körfuboltaakademíunni síðasta árið en hefði glaður viljað byrja fyrr en æfingarnar rákust alltaf á kennslustundir í grunndeildinni.

Erlendur er mjög ánægður með árangur FSu-liðsins sérstaklega í ljósi þess að þeir voru með yngsta liðið í deildinni. Hann hefði glaður viljað spila með liðinu á næsta ári í úrvalsdeildinni. Áður spilaði Erlendur með uppeldisfélagi sínu Þór í Þorlákshöfn.

Hann er býsna flinkur körfuboltamaður og hefur spilað með öllum yngri flokka landsliðum í sínum árgangi. Nú er hann í úrtökuhóp fyrir undir 20 ára landsliðið.

Hann segir lykilinn að góðum árangri felast í öllum aukaæfingunum því það skipti miklu máli að skjóta og dripla mikið aukalega til þess að hafa gott vald á boltanum og skotinu sínu.

„Ég veit að ég hef hæfileikana til þess að ná langt í körfunni. Það er alfarið undir mér komið hvað ég set mikla vinnu í aukaæfingarnar og í undirbúningstímabilin á sumrin og á það eftir að segja mikið um hversu langt ég kemst. Það er auðvitað mikilvægt líka að ná sér í góða menntun,“ segir Erlendur glaðlega.

Erlendur ætlar að nýta sumarið í að vinna og halda sér í góðu formi fyrir háskólakörfuboltann og segir það mikilvægt að vera í góðu formi þegar hann fari út. Hann segist ætla að vera á sjó í sumar og æfa þess á milli þegar hann verður í landi.

thorunn@mbl.is