Spennuhöfundurinn Persóna Lee Child, Jack Reacher, á sér aðdáendur víða.
Spennuhöfundurinn Persóna Lee Child, Jack Reacher, á sér aðdáendur víða. — Ljósmynd/Sigrid Estrada
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Lee Child. Jón St. Kristjánsson þýddi. JPV útgáfa 2015. Kilja. 398 bls.

Eftir leiðinlegan vetur er hressandi í byrjun sumars að lesa spennusöguna Ekki snúa aftur eftir Lee Child. Jack Reacher bregst ekki frekar en venjulega og kemur lesandanum á endastöð eins og hendi sé veifað.

Jack Reacher er konungur konunganna, töffari töffaranna. Að þessu sinni ræðst hann ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í Bandaríkjunum, en enn sýnir hann fram á að jafnvel menn í hæstu stöðum komast ekki með tærnar þar sem hann er með hælana. Þetta er ekki spurning um völd, heldur útsjónarsemi, kunnáttu og ekki síst heiðarleika og réttlæti. Vissulega er Jack Reacher stundum á gráu svæði en nauðsyn brýtur lög.

Spennan er mikil frá strönd til strandar og jafnvel á flugi situr hetja allra hetja ekki aðgerðarlaus heldur lætur til sín taka. Menn abbast ekki upp á Jack Reacher.

Lee Child hefur skapað frábæra persónu í Jack Reacher. Helsta sögupersónan hefur reyndar oft verið harðari í horn að taka en í sögunni Ekki snúa aftur en gerir það sem þarf að gera og gerir það vel. Susan Turner stendur sem klettur við hliðina á honum og slær á létta strengi þegar það á við.

Eflaust er ekkert grín að vera saklaus en sakaður um afbrot. Ekki er allra að takast á við slík vandamál og hvað þá að láta hart mæta hörðu til þess að ná fram rétti sínum. Þetta er ekki á færi nema hörðustu nagla og gaman væri að sjá Daniel Craig spreyta sig á verkefninu í hlutverki Jack Reachers á hvíta tjaldinu.

Steinþór Guðbjartsson

Höf.: Steinþór Guðbjartsson