Kettir Villikettir á Íslandi vilja gelda villiketti og skila þeim.
Kettir Villikettir á Íslandi vilja gelda villiketti og skila þeim. — Morgunblaðið/Eggert
Brynja B. Halldórsdóttir brynja@mbl.is Áhöld eru um hvort Hafnarfjarðarbær eða Matvælastofnun (MAST) taki ákvörðun um geldingu villikatta.

Brynja B. Halldórsdóttir

brynja@mbl.is

Áhöld eru um hvort Hafnarfjarðarbær eða Matvælastofnun (MAST) taki ákvörðun um geldingu villikatta. Heilbrigðiseftirlit bæjarins vísar á MAST en forstjóri MAST segir eðlilegra að sveitarfélagið taki á málinu að höfðu samráði við MAST.

Dýraverndunarfélagið Villikettir á Íslandi óskaði í janúar eftir samstarfi við Hafnarfjarðarbæ um að halda fjölda villikatta í bænum í skefjum. Lögðu samtökin til þá aðferð að veiða kettina, gelda og sleppa aftur enda væri það mannúðleg leið.

Að sögn Arndísar Bjarkar Sigurgeirsdóttur, formanns Villikatta, var erindi samtakanna til bæjarins þríþætt. ,,Í fyrsta lagi óskuðum við eftir að bærinn samþykkti aðferðafræði félagsins, í öðru lagi að við fengjum hluta af því fé sem fer í meindýravarnir sveitarfélagsins. Í þriðja lagi að fá afnot af húsnæði, kannski 10-20 fermetrum, þannig að við gætum haft kettina þar í nokkra daga eftir geldingu.“

Umsagnir Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar, Kattavinafélags Íslands (KÍS) og Dýraverndunarsambands Íslands (DÍS) voru lagðar fram á fundi í umhverfis- og framkvæmdaráði Hafnarfjarðar hinn 22. apríl sl.

KÍS kveðst styðja að villiköttum sé sinnt á þeim slóðum sem þeir hafi valið sér, að tilteknum forsendum gefnum. Þá segir í umsögn DÍS: ,,Starfsemi Villikatta eykur velferð veglausra katta, þar sem félagið annast þá á þeim stað þar sem þeir eru, hugar að heilsu þeirra og vinnur gegn offjölgun þeirra.“

Heilbrigðiseftirlitið ráðlagði bænum að taka ekki þátt í verkefni í samstarfi við Villiketti á Íslandi, enda hefði eftirlitið ,,ekki séð gögn sem renna stoðum undir fjölda, bjargarleysi þeirra eða skjólleysi úti í náttúrunni“. Þá kom einnig fram að framkvæmd í málaflokknum heyrði undir MAST sem ekki hefði fjallað um þá aðferð að gelda villikettina.

Páll Stefánsson, staðgengill framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlitsins, sagði í samtali við Morgunblaðið að eftirlitið hefði, við gerð umsagnar sinnar, leitað með óformlegum hætti til nokkurra náttúrufræðinga. ,,Enginn þeirra var tilbúinn að taka undir hugmyndafræði Villikatta á Íslandi,“ sagði Páll. Þá segir Páll að erindi Villikatta hafi verið illa rökstutt. Spurður um leiðbeiningarskyldu Heilbrigðiseftirlitsins gagnvart samtökunum segir hann: ,,Okkar leiðbeiningarskylda er fólgin í því að svara Hafnarfjarðarbæ. Við erum umsagnaraðilar en ekki ákvörðunaraðilar.“ Loks vísar hann til þess að málaflokkurinn falli undir MAST.

Jón Gíslason, forstjóri MAST, sagði að hann teldi, við fyrstu skoðun, að málefnið tilheyrði Hafnarfjarðarbæ en ekki MAST. ,,Við vinnum sem ríkisstofnun en þetta er mál sem snýr að sveitarfélaginu. Í málefnum sem tilheyra sveitarfélagi er eðlilegra að viðkomandi aðilar þar taki á málinu og hafi þá samráð við MAST.“ Hann bætir þó við að ekkert sé því til fyrirstöðu að Villikettir á Íslandi sendi MAST erindi, vilji þeir fá skoðun stofnunarinnar á því hvar málaflokkurinn eigi heima.

Að sögn Helgu Ingólfsdóttur, formanns umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar, var málinu frestað til 6. maí. Verið sé að meta með hvaða hætti Hafnarfjarðarbær geti komið að starfi Villikatta í samræmi við lög.