Fulltrúar helstu fjölmiðla voru á dögunum kallaðir á blaðamannafund þar sem forystumenn ÍBV kynntu að Hrafnhildur Ósk Skúladóttir hefði verið ráðin þjálfari handboltaliðs kvenna í Eyjum.

Fulltrúar helstu fjölmiðla voru á dögunum kallaðir á blaðamannafund þar sem forystumenn ÍBV kynntu að Hrafnhildur Ósk Skúladóttir hefði verið ráðin þjálfari handboltaliðs kvenna í Eyjum. Um kvöldið var viðtal við hina kappsömu konu í sjónvarpsfréttum RÚV og umfjöllun annarra miðla var tilþrifamikil. Þá var mikið úr því gert nýlega að Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði landsliðs Íslands í knattspyrnu, hefði, í stað þess að vera viðstaddur fæðingu barns síns og unnustu sinnar, fórnað sér fyrir fósturjörðina og staðið sína plikt í landsleik Íslands og Kasakstans. Það þriðja í þessum dúr sem vakið hefur athygli Víkverja eru fréttir um að handknattleiksmaðurinn Hans Óskar Lindberg, sem búsettur er í Danmörku en á íslenska foreldra, hafi orðið fyrir hnjaski á keppnisvelli í Þýskalandi og sé því úr leik um stundarsakir.

Ekki skal lítið gert úr afrekum Hrafnhildar Óskar, en að því sé slegið upp sem stórmáli að fólk ráði sig í nýja vist er vel í lagt. Og stundum hendir, til dæmis í sjómannastétt, að feður séu fjarstaddir fæðingu barna sinna. Að meiðast og vera frá vinnu getur sömuleiðis hent hvern sem er. Fólk leitar á slysadeild eftir byltur, leggst í flensu og svo framvegis og er frá vinnu í einhverja daga. En það er ekki fréttaefni, því fólk rís yfirleitt fljótt á fætur aftur.

Víkverji starfar á fjölmennum vinnustað og af því leiðir að fólk hættir og aðrir eru ráðnir, einhver í fríi og annar veikur og því frá vinnu um stundarsakir. Slíkt er bara hluti af daglegum gangi tilverunnar. En að íþróttamenn færi sig á milli liða eða íhugi slíkt, veikist, meiðist, tapi leik eða sigri mótherja í spennandi leik og svo framvegis þykir saga til næsta bæjar. Eins og lesa má af þessum pistli hefur Víkverji dagsins aldrei verið íþróttalega sinnaður og þykir mál sem hér eru reifuð frekar léttvæg og fréttagildi þeirra lítið sem ekkert. Spyr því um íþróttafréttir þessar eins og Grýlurnar sungu í Stuðmannamyndinni um árið: Hvað er svona merkilegt við það ?