Olga Lísa Garðarsdóttir
Olga Lísa Garðarsdóttir
Í haust gefst nemendum kostur á að skrá sig í frjálsíþróttadeild akademíu FSu fyrir afreksíþróttafólk. Þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á frjálsar íþróttir í akademíunni.

Í haust gefst nemendum kostur á að skrá sig í frjálsíþróttadeild akademíu FSu fyrir afreksíþróttafólk. Þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á frjálsar íþróttir í akademíunni.

Frjálsíþróttadeildin bætist við körfubolta-, knattspyrnu-, handbolta- og fimleikaakademíuna sem fyrir er í skólanum.

„Akademíurnar eru m.a. flaggskipin okkar. Við erum með frábæra þjálfara og öll aðstaða fyrir íþróttaiðkun er hér til fyrirmyndar. Við erum í miklu og góðu samstarfi við sveitarfélagið og það er mikill vilji í samfélaginu að halda áfram að byggja upp gott íþróttastarf í samstarfi við skólann,“ segir Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Nýir áfangar fyrir alla nemendur sem stunda nám í akademíunni eru í undirbúningi, samkvæmt nýrri námskrá. Áfangarnir samanstanda m.a. af næringarfræði, lífeðlisfræði, þjálfunarfræði o.fl en þessir áfangar verða þó ekki kenndir fyrr en haustið 2016. Þeir eru liður í því að samræma og bæta kennslu akademíunnar í skólanum.

Olga Lísa segir að valkosturinn, að komast í akademíuna sporni tvímælalaust gegn brottfalli nemenda úr skóla. Með fleiri valkostum í námi eru alltaf meiri líkur á að þeir sem hafa ekki áhuga finni sína leið innan skólakerfisins.

„Þetta eru vel skipulagðir krakkar sem skila sínu og bera ábyrgð á sjálfum sér. Þau eru jákvæðar fyrirmyndir en þau skrifa undir samning um að reykja og drekka ekki sem vonandi smitar út frá sér,“ segir Olga og bendir á að henni þyki sérstaklega gaman að sjá hversu vel hópurinn sem stundar nám í akademíunni heldur saman.

„Við erum á góðum stað og nú þurfum við að halda áfram að þróa okkur en við horfum gjarnan til módela á hinum löndunum á Norðurlöndunum þar sem nemendum gefst kostur á að æfa við bestu aðstæður og mennta sig í leiðinni,“ segir Olga.