Ég ætla að muna síðasta sumar sem frábært sumar því það er það sem það var. Það var óvenjuhlýtt, gróðurinn spratt sem aldrei fyrr og myndaði hitabeltisskóg úr rabarbara, graslauk og rósarunna á litlum reit.

Ég ætla að muna síðasta sumar sem frábært sumar því það er það sem það var. Það var óvenjuhlýtt, gróðurinn spratt sem aldrei fyrr og myndaði hitabeltisskóg úr rabarbara, graslauk og rósarunna á litlum reit. Ég þurrkaði allt úti á snúru og þó að þvottinn rigndi niður jafnóðum varð hann auðvitað bara einstaklega hreinn fyrir vikið.

Stundum er talað um lélegt veðurminni og það ber á því núna þegar síðasta sumar er, í ljósi þessa kalda vors, líka dæmt glatað án trúverðugra vitna. Feginleika ætti að gæta; sólin þarf engan veginn að fá frekari tækifæri til að vinna með húð okkar, húðkrabbamein algengt sem aldrei fyrr. Brúnn og veikur er hlutskipti sem verður ekki umbreytt með umskráningu minninga.

Á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 1994 varð helmingur þeirra sem ætluðu að fagna aldrei meira en tilvonandi og aldrei verðandi gestir og ég var einn þeirra í hinum frægu óbifandi bílalestum.

Ég kýs að muna þetta fyrst og fremst sem góðan bíltúr en ekki örvæntingu yfir því að tapa af gleðinni. Ég var með kjötbollur í nesti og súrsæta sósu til að dýfa í, ágætis tónlist í útvarpinu og Pálma Gunnarsson á kassettu. Svo var bara snúið við á þjóðveginum einhvern tíman þegar bíltúrinn hafði svalað okkar sveitabíltúrsþörf. Að vera á rúntinum var ekkert verri leið en hver önnur til að samgleðjast lýðveldisafmælisbarninu.

Ég gæti haldið áfram í allan dag með minningar sem ég hef líka í seinni tíð reynt að snúa við. Það er þá gjöfult ráð að reyna að muna til dæmis þær hrikalega vandræðalegu sem hrikalega fyndnar svo kaldur aulahrollur hríslist ekki um mann í hvert sinn sem maður rekst á eitthvað sem minnir mann á, tja til dæmis þegar maður flúði undan nágrannatíkinni nokkra hringi um hverfið, læstur úti og hún laus og á lóðaríi. Hún tók mann fyrir annan hund sem væri hægt að kela við, segi ekki meira, það má botna þetta með eigin hugmyndum.

Stundum er talað um þrjú minnisþrep; umskráningu, geymd og endurheimt.

Þannig erum við sífellt að skrá niður hjá okkur það sem gerist til að við getum rifjað það upp síðar þegar við þurfum á því að halda.

Minnið er okkur mjög mikilvægt en það er ofmetið. Við þurfum ekkert að vera með það í minni sem gagnast okkur ekki, eða við þurfum í það minnsta ekkert að vera með þetta skráð satt og rétt. Segjum að við þurfum aðeins að umskrá lítillega, breyta bókhaldinu, er okkur ekki bara sama ef það skaðar engan? Jú, takk, ljómandi. julia@mbl.is

Júlía Margrét Alexandersdóttir