Bogi Þórir Guðjónsson vélvirkjameistari fæddist á Siglufirði 30. september 1926. Hann lést 19. apríl 2015 á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi.

Foreldrar hans voru Guðjón Jónsson, bifreiðarstjóri og iðnrekandi frá Dagverðarnesi á Rangárvöllum, f. 1. september 1898, d. 30. nóvember 1977, og Magnea Halldórsdóttir húsmóðir, fædd í Svarfaðardal 22. mars 1896, dáin 8. maí 1984. Systkini Boga eru 1) Jón, f. 20.1. 24, d. 8.12. 05, 2) Halldór Grétar, f. 12.4. 25, d. 9.11. 11, 3) Þórmar, f. 21.3. 29, d. 13.10. 2013, 4) Hlín, f. 8.2. 31, 5) Einar Ingi, f. 24.9. 32, d. 16.1. 04, 6) Hilmar Friðrik, f. 23.4. 34, d. 7.11. 10, 7) Bragi, f. 22.1. 36, d. 8.4. 10 og 8) Elísa, f. 16.10. 37.

Eiginkona Boga var Hrafnhildur Margrét Viggósdóttir, f. 9. október 1928 á Stokkseyri. Hún lést 29. mars 1987. Foreldrar hennar voru Viggó Guðjónsson vélstjóri og Aðalheiður Gestsdóttir, húsmóðir á Eyrarbakka. Bogi og Hrafnhildur gengu í hjónaband 10. júlí 1950. Börn þeirra eru 1) Guðjón, f. 23.12. 1949. Börn hans eru a) Sigríður Dögg, f. 21.12. 1973, maki Steinar Þór Stefánsson, b) Bogi Hrafn, f. 22.9. 1985, maki Alexandra Ýr Sigurðardóttir, c) Einar Örn, f. 22.9. 1988, maki Hildur Björk Jónsdóttir 2.) Heiða, f. 26.1. 1951, maki Robert Ickes. Synir þeirra a) Þórir, f. 13.3. 1969 og b) Wilhelm, f. 13.11. 1970. 3) Sólveig, f. 30.8. 1955, maki Páll Einarsson, börn þeirra a) Vignir, f. 19.6. 1969, b) Eyrún, f. 31.8. 1972, maki Andri Snædal Aðalsteinsson og c) Sæunn, f. 7.2. 1979, d. 1.11. 2004. 4) Þórunn, f. 1.5. 1960, synir hennar a) Bogi Sid, f. 4.9. 1986, og b) Allen, f. 10.3. 1989, 5) Heba, f. 31.5. 1967, maki Þórhallur Ingi Hrafnsson, börn þeirra a) Hrafnhildur Margrét, f. 27.8. 1988, maki Víðir Smári Petersen, b) Katrín, f. 10.11. 1999 og c) Hrafn, f. 26.9. 2003. 6) Linda Lea f. 2.10. 1968, börn hennar a) Kristján Þórir, f. 5.7. 1985, b) Rafn Júlíus, f. 23.10. 1988, maki Svandís Svanlaugsdóttir, c) Stefán, f. 1.2. 1993, d) Hrafnhildur Heiða, f. 29.4. 1994 og e) Sigrún Embla, f. 13.5. 2011. Bogi átti 13 barnabarnabörn og eitt langalangafabarn.

Ástkær vinkona Boga og samferðarfélagi síðustu ár var Sjöfn Sigurjónsdóttir, f. 13. janúar 1932.

Bogi var fæddur á Siglufirði og ólst þar upp fram á unglingsár. Hann bjó í Málmey í þrjú ár ásamt fjölskyldu sinni á stríðsárunum. Við stríðslok árið 1945 flutti fjölskyldan í Kópavoginn. Bogi hóf ungur að árum nám í vélvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík og lauk þaðan meistaraprófi árið 1953. Hann fór síðar utan til Bandaríkjanna til að læra járnsuðu. Bogi var einn af stofnendum Stálskipasmiðju Kópavogs árið 1961 og rak hana allt til ársins 1967. Hann starfaði til fjölda ára við skipasmíðar í Bátalóni í Hafnarfirði. Bogi stofnaði í kringum 1980 fyrirtækið Hjálpartæki Þórir. B. Guðjónsson þar sem hann vann við breytingar á bílum fyrir hreyfihamlaða og smíðaði hjólastólalyftur. Bogi var frumkvöðull og fann upp, hannaði og smíðaði handstýrð tæki sem gerði hreyfihömluðum kleift að aka bíl. Bogi var mjög virkur í félagsstarfi eldri borgara í Kópavogi.

Útför hans fer fram frá Digraneskirkju í dag, 27. apríl 2015, kl. 13.

Pabbi, hann var aðeins einn,

engum manni líkur,

okkur reyndist ekki neinn

af alúð svona ríkur.

Þó ýmsir hyrfu oft á brott,

aðrir brygðust stundum,

þá reyndist okkur alltaf gott

eins að ná hans fundum.

Á mynd hans eru augun hlý

sem ekki er hægt að gleyma.

Brosið milt við munum í

minningunni geyma

Jesú Kristur kærleikans,

kveðju færðu honum,

segðu að við söknum hans

í sátt með björtum vonum.

(Úr ensku, höf. ók./GS)

Heiða og Þórunn.

Nú þegar síðustu kveðjunni hefur verið kastað langar mig að hripa niður nokkur minningarorð um tengdaföður minn, sem mér þótti afar vænt um og leit á í mörgu tilliti sem fyrirmynd og læriföður. Við vorum ekki gömul þegar við Solla tókum upp á því að rugla saman reytum. Þeirri ákvörðun fylgdu að sjálfsögðu tengsl við alla sem að okkur stóðu, þar á meðal við tengdaforeldra mína, þau Boga og Möggu, sem tóku mér afskaplega vel, og með okkur þróaðist mikill og órjúfanlegur vinskapur sem aldrei bar skugga á.

Í byrjun áttunda áratugarins stofnuðum við okkar fyrsta heimili í Kópavogi þar sem við leigðum af Boga og Möggu neðri hæð í húsi sem þau áttu við Álfhólsveginn. Þetta voru yndislegir tímar þar sem börnin okkar gátu flakkað á milli hæða og nutu góðs atlætis hjá afa og ömmu og voru stundum að okkar mati ofdekruð. En þessi góði samgangur milli þeirra skapaði mikla væntumþykju hjá börnunum í garð ömmu og afa og gagnkvæmt.

Árin liðu, börnin okkar vaxa úr grasi og það kemur að því að við kaupum okkar eigið húsnæði, fyrst í Breiðholti en komum síðan aftur í Kópavoginn. Um miðjan níunda áratuginn kaupum við okkur hús við Hrauntunguna og þá fæ ég kynnast fagmanninum í tengdaföður mínum. Hvílíkur þúsundaþjalasmiður. Þvílík hjálp sem hann veitti okkur við allar framkvæmdir.

Ef eitthvað kom upp á sem hann var ekki viss um, þá leitaði hann sér þekkingar á viðfangsefninu og leysti það. Allt í hans tali og framkomu var eins og meitlað í stein. Það var einhvern veginn þannig að það sem hann sagði eða gerði hafði alltaf einhverja þýðingu. Hann sagði aldrei né framkvæmdi einhverja þvælu. Það var ekki til í hans persónu.

Fljótlega eftir að við vorum búin að koma okkur vel fyrir í Hrauntungunni verður fjölskyldan fyrir áfalli þegar Magga deyr langt um aldur fram úr krabbameini. Þetta leggst þungt á Boga, sem verður einmana í kjölfarið, en sem betur fer ákveður hann að venja komur sínar í auknum mæli á heimili okkar þar sem við áttum margar góðar og skemmtilegar stundir. Á þessum samverustundum voru t.d. skipulögð ferðalög um landið, þar sem við heimsóttum meðal annars fæðingarbæ hans á Siglufirði. Mér er minnisstæð ferðin yfir Siglufjarðarskarð sem mér þótti nokkuð hrikaleg, en gaman var að hlusta á frásögn Boga þegar hann sem ungur maður tók þátt í vegagerð yfir skarðið. Áður hafði eingöngu verið fært með bátum til Siglufjarðar.

Bogi var heilsuhraustur maður alla tíð, en þegar elli kerling fór að láta á sér kræla voru það helst fæturnir sem gáfu sig, en hann lét það ekki aftra sér frá að lifa lífinu áfram. Hann varð svo lánsamur að kynnast henni Sjöfn sem varð hans helsti vinur og stuðningur síðastliðin ár. Það fór ekki á milli mála að þeim leið vel saman og veit ég að það er erfitt fyrir Sjöfn að horfa á eftir vini sínum.

Allar minningar um Boga og Möggu eru mér mjög dýrmætar, sérstaklega nú þegar er búið er að setja niður endapunktinn. Þeirra vegferð er lokið, en minningin um þau lifir í hjarta okkar sem þótti vænt um þau.

Páll (Palli) tengdasonur.