Hart barist Íslandsmótið í júdó fór fram um helgina í Laugardalshöll þar sem hart var tekist á. Hér eru Hjördís Ólafsdóttir og Ingunn Sigurðardóttir að kljást. Þrjár konur tóku þátt í Íslandsmótinu um helgina.
Hart barist Íslandsmótið í júdó fór fram um helgina í Laugardalshöll þar sem hart var tekist á. Hér eru Hjördís Ólafsdóttir og Ingunn Sigurðardóttir að kljást. Þrjár konur tóku þátt í Íslandsmótinu um helgina. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is „Ég byrjaði að æfa júdó þegar ég var 14 ára og mér finnst það hafa bætt mig á mjög mörgum sviðum. Ég var aldrei mikill námsmaður en nú er ég í Háskólanum að skila mastersritgerð.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

„Ég byrjaði að æfa júdó þegar ég var 14 ára og mér finnst það hafa bætt mig á mjög mörgum sviðum. Ég var aldrei mikill námsmaður en nú er ég í Háskólanum að skila mastersritgerð. Ég tengi það við júdóið því það kennir manni aga, skipulag og virðingu. Ég mæli með júdó fyrir allar stelpur, alveg hiklaust,“ segir Anna Soffía Víkingsdóttir en hún varð um helgina Íslandsmeistari í opnum flokki á Íslandsmótinu í júdó. Hjördís Ólafsdóttir varð önnur og Ingunn Sigurðardóttir í þriðja sæti.

Þetta er í sjöunda sinn sem Anna hrósar sigri í opnum flokki en hún vann sínar glímur á ipponi.

„Mótið var mjög skemmtilegt. Það voru reyndar margar stelpur meiddar þannig að það vantaði aðeins inn í nokkra flokka. Hins vegar voru öflugar stelpur að keppa og það voru mörg flott tilþrif. Mikið af flottum köstum og fjörugt mót í alla staði,“ segir hún.

Meistari líka í jiujitsu

Anna segir að júdó sé ekki dýr íþrótt og reyni á bæði andlega og líkamlega.

„Ég er búin að prófa margar aðrar íþróttir og fyrir utan júdóið er ég líka að æfa brasilískt jiujitsu. Varð einmitt tvöfaldur meistari um síðustu helgi. Svo hef ég prófað hnefaleika.

Júdó er erfið íþrótt líkamlega og andlega en hún styrkir mann gríðarlega. Þegar maður kemst inn í íþróttina lærir maður að takast á við mótlæti og styrkist. Þetta er með erfiðari íþróttum sem ég hef prófað en hún er alveg hrikalega skemmtileg.

Það er ekki dýrt að byrja í júdó, það þarf bara að eiga einn galla, – tvo ef fólk er farið að keppa. Það þarf ekkert meiri búnað. Svo bara að borga æfingagjöld eins og gengur og gerist og þau eru ekki mjög há.“

Anna bætir við að hún vonist til að sjá fleiri stelpur velja sér júdó sem íþrótt. „Júdó er samofið sögu Íslands og það væri algjör synd ef þátttaka á mótum færi að detta eitthvað niður. Við höfum átt öflugar konur í íþróttinni sem hafa náð góðum árangri á alþjóðavettvangi; smáþjóðameistara, Norðurlandameistara og fleira. Við erum með víkingablóð í okkur! Hins vegar er mikið og öflugt barna- og unglingastarf hjá félögunum og margir ungir og efnilegir glímumenn og -konur að koma upp.“

Sjöundi sigur Önnu
» Anna Soffía hóf að stunda júdó þegar hún var 14 ára.
» Þetta var í sjöunda sinn sem hún hrósar sigri í opna flokknum.
» Hún varð Íslandsmeistari í brasilísku jiujitsu um síðustu helgi.
» Aðeins þrjár konur tóku þátt í Íslandsmótinu um helgina.