Bára Sigurðardóttir fæddist í Vestmannaeyjum 16. desember 1925. Hún lést á Hrafnistu 14. apríl 2015.

Hún var dóttir hjónanna Auðbjargar Jónsdóttur frá Tungu í Fljótshlíð, f. 6. mars 1886, d. 9. október 1968, og Sigurðar Ólafssonar, smiðs og formanns frá Hrútafellskoti undir Austur-Eyjafjöllum, f. 5. október 1859, d. 2. september 1940. Systkini Báru voru: Þorgerður Sigurbjörg (hálfsystir), f. 5. maí 1895, d. 16. mars 1969; Óskar, f. 1. júní 1910, d. 4. júní 1969, og Lilja, f. 26. mars 1919, d. 22. nóvember 1999.

2. október 1948 giftist Bára Páli Ólafi Gíslasyni, sjómanni frá Norðfirði, síðar bifreiðastjóra og afgreiðslumanni, f. 3. mars 1922, d. 3. mars 2002. Börn þeirra eru 1) Auðbjörg, f. 20. janúar 1949, gift Guðjóni Ágúst Norðdahl, fóstursonur Einar Vilhjálmsson. 2) Gísli, f. 22. desember 1949, kvæntur Guðnýju Sigurbjörgu Guðbjörnsdóttur, börn Páll Óskar, kvæntur Önnu Þorbjörgu Jónsdóttur, synir Jón Bjarni og Gísli Þór; og Rósa Signý, sambýlismaður Bjarki Bergmann Gunnlaugsson, dóttir þeirra Saga Rós, börn Bjarka Viktor Bergmann og Tanja Kristín. 3) Sigurður Þór, f. 3. ágúst 1953, d. 24. maí 1971. 4) Karl, f. 2. júní 1961, var áður kvæntur Mettu Baatrup, dætur þeirra Berglind, Íris og Katrín Bára; sambýliskona Ólöf Sigurðardóttir, sonur hennar Erlendur Halldór. 5) Lilja, f. 2. september 1962, gift Halldóri Sighvatssyni, börn Sighvatur, kvæntur Sunnu Ósk Ómarsdóttur, sonur Halldór Elí; og Bryndís Lára, sambýlismaður Tómas Gunnar Tómasson.

Bára ólst upp í Vestmannaeyjum og bjó þar til 1968 er hún fluttist til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni. Ung að árum vann hún við heimilishjálp og afgreiðslustörf. Hún vann lengst húsmóðurstörf, en jafnframt, einkum seinni árin þegar börnin voru vaxin úr grasi, þjónustu- og afgreiðslustörf.

Útför Báru Sigurðardóttur verður gerð frá Áskirkju í dag, 27. apríl 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Látin er tengdamóðir mín, tæplega níræð að aldri. Yfirveguð, nákvæm og athugul kona, sem ávallt var með allt sitt á hreinu.

Bára ólst upp á Bólstað í Vestmannaeyjum. Faðir hennar aldraður lést þegar hún var unglingur, en móðir hennar Auðbjörg bjó með Báru alla sína tíð. Bára stóð sig vel í námi og var hvött til að læra „meira“ en líklega hafa takmörkuð fjárráð ekkjunnar og kynhlutverk samtímans sett henni skorður. Bára lét þó ekki alveg þar við sitja. Hún notaði föðurarf sinn til að kosta sig til frekara náms við Héraðsskólann á Laugarvatni. Á unglingsárunum stundaði Bára ýmis störf. Í tvö ár vann hún við heimilisstörf hjá listmálaranum Engilberti Gíslasyni og konu hans, og um tvítugt vann hún í tvö sumur við svipuð störf á Bessastöðum, hjá Sveini Björnssyni forseta. Síðar vann hún við afgreiðslustörf í bókabúðinni í Eyjum og á fleiri stöðum.

Rúmlega tvítug kynntust þau Palli. Skondin er sagan sem hún sagði okkur af þeirra fyrstu kynnum. Þau kynntust á dansleik í Eyjum, og skömmu síðar sendi Palli systur sína eftir Báru og var samband þeirra innsiglað í lok þess fundar. Samrýmdari hjón er varla hægt að hugsa sér. Þau byggðu eigið hús við Nýjabæjarbraut, en fluttu til Reykjavíkur 1968 þegar börnin voru farin suður í skóla. Í Reykjavík bjó fjölskyldan lengst af í Árbæjarhverfi, þar sem Páll vann sem stöðvarstjóri. Eftir andlát Palla árið 2002 flutti Bára inn á Hrafnistu. Þar eignaðist hún góða kunningja og naut mjög góðrar aðhlynningar. Hún var sátt við allt og tilbúin að fara.

Það var unun að fylgjast með hvernig Bára upplifði sumarfrí sín og tómstundir með góðum undirbúningi, myndum og spjalli. Fyrir utan ferðalög um landið var það sumarbústaðurinn þeirra við Gíslholtsvatn, sem átti hug þeirra og hjarta. Síðast en ekki síst voru það Spánarferðirnar, sem voru ófáar og gáfu þeim ómælda ánægju.

Bára og Palli héldu vel utan um fjölskyldu sína, buðu reglulega heim á afmælum og hátíðum, að ógleymdum árlegum „lundaveislum“. Henni og þeim hjónum verður seint þakkaður allur stuðningurinn við fjölskyldu okkar Gísla.

Bára var alla tíð eins konar alfræðibók hjá fjölskyldunni. Fólk gat reitt sig á minni hennar og athygli. Jafnan skráði hún hjá sér ýmsa viðburði svo sem læknisheimsóknir og gat rifjað upp löngu liðna atburði af ótrúlegri nákvæmni. Nú hefur þessari alfræðibók því miður verið lokað.

Þegar Bára var orðin ekkja var eins og hún breyttist, þegar við kynntumst henni á eigin forsendum við aðrar aðstæður. Hún varð tilbúnari í ýmislegt, ákveðnari, meiri fagurkeri og opnari. „Ég segi bara já við öllu núna,“ sagði hún oft, hálfhissa á sjálfri sér. Við Gísli erum þakklát fyrir margar ógleymanlegar stundir með henni, ekki síst frá Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum. Mest gaman fannst henni að koma til okkar í sumarbústaðinn. Þar sá hún Palla sinn gjarnan í fuglunum eins og í lóunni eða maríuerlunni, og talaði til hans á hverju kvöldi. Hvíldu í friði, elsku tengdamamma.

Blessuð sé minning Báru Sigurðardóttur.

Guðný S. Guðbjörnsdóttir.

Ég sit með sex mánaða Sögu mína í fanginu, umvafða fallega teppinu sem amma Bára heklaði, og hugsa til elsku ömmu. Hún hafði sýnt mikla fyrirhyggju og heklað nokkur teppi handa ófæddum barnabarnabörnum fyrir einhverjum árum síðan, áður en sjóninni og heilsunni hrakaði. Hún átti því nokkur á lager þegar ljóst var að lítil stelpa var á leiðinni. Já hún amma var útsjónarsöm. En það var fyrst og fremst hlýja og umhyggja sem einkenndu hana. Hún og afi Palli voru alltaf boðin og búin að hjálpa til. Mér er það minnisstætt þegar eitt menntaskólapartíið hafði aðeins farið úr böndunum í Granaskjólinu; mamma og pabbi voru ekki í bænum og amma og afi buðust til að koma og hjálpa til við tiltektina. Þau létu ósköpin ekkert á sig fá – löskuð húsgögn, skítug gólf – og komu heimilinu aftur í gott stand án þess að gagnrýna heimasætuna einu orði. Það var reyndar uppi á teningnum almennt; amma Bára var afar skilningsrík gagnvart barnabarninu sem var alltaf í námi erlendis.

Fyrir tæpum tíu árum síðan gaf amma mér í útskriftargjöf dýrindis silfurarmband, sem hún hafði fengið við fermingu. Hún sá fyrir sér að þetta yrði ættargripur fyrir mig og litla stúlku, sem ég myndi vonandi eignast. Þessa dagana ber ég armbandið henni til heiðurs, þakklát fyrir að hafa átt þessa flottu og kláru konu að. Elsku amma, nú segi ég eins og afi: Vertu hjá guði og spyrntu í!

Rósa Signý Gísladóttir.

Bára frænka mín er farin, hún var ferðbúin, heilsan að smáfara og hún sátt við að kveðja.

Margs er að minnast frá samveru liðinna ára. Þegar ég var barn voru jólapakkar ekki algengir og var mikið tilhlökkunarefni fyrir jólin að fá pakkana frá Bólstað. Mér eru sérstaklega minnisstæð ein jólin þegar ég fékk áteiknað koddaver frá henni ásamt garni sem ég saumaði síðan út. Þetta koddaver átti ég í mörg ár. Mér datt alltaf Bára frænka mín í hug þegar ég notaði þetta ver.

Um vorið 1957 fór ég í fyrsta og eina skiptið á vertíð til Eyja, þá var það ekki spurning að ég yrði á Bólstað hjá frændfólkinu. Vera mín á Bólstað er eitt af því sem ég geymi í minningu minni frá liðinni tíð. Þar bjuggu Auðbjörg eldri, Bára og Palli og börnin þeirra; Auðbjörg, Gísli og Sigurður. Palli ók vörubíl og kom heim í hádeginu eins og tíðkaðist þá. Hann var alltaf kátur og gerði að gamni sínu við alla og ekki síst við ungu sveitastelpuna. Bára var alltaf svo fín og þegar hún fór út klæddi hún sig upp í flotta kápu og háhælaða skó. Einhvern tímann þegar ég hafði orð á þessu við hana sagði hún að það hefði ekki tíðkast í Eyjum að fara út á inniskónum.

Eftir að Bára og fjölskylda hennar fluttu til Reykjavíkur urðu samskipti okkar meiri og var oft komið við í Hraunbænum á leiðinni heim. Þá voru ekki síðri heimsóknirnar okkar Sigga í sumarbústaðinn til þeirra. Þar leið þeim Báru og Palla svo vel og gaman að koma til þeirra. Þar gátu þau gert garðinn sinn svo fínan, yndislegt var að eiga þar með þeim góðar stundir og gaman að horfa yfir Gíslholtsvatnið í kvöldkyrrðinni.

Ég þakka Báru frænku minni tryggð hennar og vináttu liðinna ára. Blessuð sé minning hennar.

Ragna Erlendsdóttir frá Skíðbakka.

Þegar vinkona kveður er margs að minnast og margt að þakka. Vinátta okkar Báru hefur varað allt frá bernskuárum. Slík vinátta er dýrmætur fjársjóður, enda samleiðin vörðuð góðum minningum.

Um leið og ég bið Guð að blessa minningu Báru, votta ég börnum hennar og fjölskyldum þeirra innilegustu samúð.

Hver minning dýrmæt perla að liðn um lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Svava Gunnarsdóttir.