Borgaryfirvöld hafa beitt óvenjulega ósvífnum klækjum gegn Reykjavíkurflugvelli

Á bending innanríkisráðherra til borgarstjóra um að veiting framkvæmdaleyfis í nágrenni Reykjavíkurflugvallar væri ótímabær, var fyllilega tímabær. Hið sama má segja um athugasemd forsætisráðherra á flokksþingi Framsóknarflokksins fyrr í mánuðinum um að grípa þyrfti „til varna fyrir Reykjavíkurflugvöll og koma í veg fyrir að borgaryfirvöld grafi stöðugt undan flugvellinum og beiti brögðum til að losna við hann“.

Staðreyndin er því miður sú að borgaryfirvöld hafa beitt brögðum við að reyna að knýja í gegn þá sérviskuskoðun sína að Reykjavíkurflugvöllur megi alls ekki vera í Vatnsmýrinni. Langflestir borgarbúar, og að auki langflestir landsmenn, styðja Reykjavíkurflugvöll og vilja tryggar flugsamgöngur innanlands, þar með talið sjúkraflug í nágrenni Landspítalans. Þetta vita borgaryfirvöld og hafa þess vegna ekki gengið hreint til verks til að ýta flugvellinum úr Vatnsmýrinni. Þess í stað er saumað að flugvellinum með því að fækka flugbrautum, reyna að hrekja sem mest af flugtengdri starfsemi frá vellinum og með því að þétta byggð í kringum völlinn þar til áframhaldandi rekstur hans verður illmögulegur. Og þetta gera þau þrátt fyrir samkomulag sem þau eiga aðild að um framtíð flugvallarins.

Hvarvetna þar sem sérviskusjónarmið núverandi borgarstjórnarmeirihluta ráða ekki ferðinni þykir borgaryfirvöldum kostur að hafa flugvöll sem næst hringiðu borgarinnar, enda þykir ávinningur af greiðum samgöngum í flestum borgum þó að borgaryfirvöld í Reykjavík séu annarrar skoðunar.

Vegna þessara sérkennilegu sjónarmiða borgaryfirvalda og þeirra klækjabragða sem þau beita til að ýta Reykjavíkurflugvelli úr borginni, þvert á vilja almennings, er mikilvægt að stjórnvöld í landinu ætli að grípa til varna fyrir flugvöllinn. Það getur ekki gengið að lítill hópur sem berst fyrir sjónarmiðum sem ganga þvert á skoðanir almennings um svo mikilvægt mál, geti með klækjum misnotað aðstöðu sína til að ná fram sérvisku sinni. Slík vinnubrögð verður að stöðva áður en það er um seinan.