Holuhraun Gosið þótti tilkomumikið en enn eru lokanir í gangi.
Holuhraun Gosið þótti tilkomumikið en enn eru lokanir í gangi. — Morgunblaðið/RAX
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Ársfundur norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs verður haldinn í dag á Hvalasafninu á Húsavík. Þemað er Holuhraun og nágrenni. Þar mun Hjörleifur Finnsson þjóðgarðsvörður flytja erindi um ferðamennsku í og við hraunið.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Ársfundur norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs verður haldinn í dag á Hvalasafninu á Húsavík. Þemað er Holuhraun og nágrenni. Þar mun Hjörleifur Finnsson þjóðgarðsvörður flytja erindi um ferðamennsku í og við hraunið.

Þó mörgum spurningum sé ósvarað um Holuhraun er Hjörleifur búinn að velta upp möguleikum ef lokunum verður aflétt og einnig ef lokanir halda áfram.

„Við erum búin að velta fyrir okkur stöðunni. Hverjir eru möguleikarnir í stöðunni, ef lokunarsvæðið minnkar eða breytist eða ef það breytist ekki? Stóru spurningarnar sem á eftir að svara eru hvernig vatn mun setjast að hrauninu til framtíðar. Það er ekki komið kort af svæðinu frá Veðurstofunni en þeir eru að vinna að því og það verður tilbúið von bráðar. Þegar þeirri vinnu er lokið verður hægt að svara nokkrum spurningum,“ segir Hjörleifur í samtali við Morgunblaðið.

Gæti aukið ferðamannastraum

Hann mun einnig fjalla um gönguleiðir í Hrauninu.

„Í sjálfu sér er hraunið mjög merkilegt og atburðurinn líka. En ef ekki verður hægt að komast að áhugaverðustu stöðunum þá er þetta auðvitað ekki jafn sjónrænt og þegar gosið stóð yfir. Ég er þess fullviss að þetta eykur gildi svæðisins og mun auka ferðamannastraum. Þarna rétt hjá er Askja, sem er ein mesta perla hálendisins, og saman verður þetta stórkostlegt svæði.“

Hjörleifur telur ekki útséð hvaða svæði verði aðgengileg út frá náttúrulegum aðstæðum en ferðamennska um hálendið leggst venjulega nánast af um vorin vegna leysinga. „Þetta er mikið af pælingum. Einhverjar staðreyndir höfum við en mörgum spurningum er enn ósvarað,“ segir hann.

Meðal annarra erinda á fundi Vatnajökulsþjóðgarðs má nefna að Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur mun fjalla um myndun Holuhrauns og sérstöðu þess.