Hubble-sjónaukinn hefur víkkað sjóndeildarhring mannkynsins

Þess er minnst um þessar mundir að 25 ár eru liðin frá því að Hubble-geimsjónaukanum var komið fyrir á sporbaug jarðar. Það var ekki létt verk að tryggja fjármögnun sjónaukans, og lítilsháttar ónákvæmni í framleiðslu hans kom í veg fyrir að myndirnar sem bárust til jarðar í fyrstu væru nægilega góðar. Það tókst hins vegar að lagfæra þessa byrjunarörðugleika, og Hubble-sjónaukinn er nú eitt dýrmætasta verkfæri geimvísindamanna.

Þökk sé sjónaukanum er talið að tekist hafi að reikna út aldur alheimsins og kortleggja dreifingu hulduefnis. Hann hefur fært okkur myndir af stjörnum í fæðingu og myndir af sprengistjörnum, myndir af gasskýjum og fjarlægum stjörnuþokum sem mannkynið hefði aldrei órað fyrir að væru til. Þessar myndir hafa svo aftur leitt til afreka í vísindastarfi heimsins beggja vegna Atlantsála.

Talið er að sjónaukinn muni að óbreyttu geta sinnt hlutverki sínu í fimm ár í viðbót, en einungis var gert ráð fyrir að hann yrði á sporbaug í um áratug. Hubble-sjónaukinn hefur því meira en sannað gildi sitt, en á sínum tíma voru færð fyrir því rök að framleiðsla hans og rekstur yrði allt of dýr miðað við þann ávinning sem vænta mætti.

Mikilvægt er að geimvísindastofnanir hugi nú að því hvað taki við þegar sjónaukans mun ekki njóta lengur við. Með betri tækjum og tækni mun mannkynið geta séð lengra og fundið meira en Hubble-sjónaukinn hefur þó gert. Hann hefur byggt grundvöll fyrir vísindamenn framtíðarinnar en fjarri því svalað allri forvitni mannsins um óravíddir geimsins.