[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is „Það gerðist allt í einu, þrátt fyrir vorhret og leiðindi, að nú koma jarðarberin í búðir.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

„Það gerðist allt í einu, þrátt fyrir vorhret og leiðindi, að nú koma jarðarberin í búðir. Nú skiptir veðrið ekki lengur máli heldur fáum við okkur bara jarðarber og rjóma,“ segir Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, en fyrir honum er sumarið komið, enda bauð hann að venju til sumardagskaffis nema núna voru íslensk jarðarber með vöfflunum. „Sumarið kemur mánuði fyrr en venjulega. Ástæðan er sú að tveir stórir framleiðendur tóku sig til og ákváðu að gera þetta af fullum krafti. Þeir settu lýsingu í gróðurhúsin og eru búnir að gera tilraunir með berin. Komu svo á markaðinn í fyrra en af fullum þunga í ár. Berin eru í flottu standi, mánuði fyrr á ferðinni, og það lítur allt út fyrir það að framboðið af jarðarberjum verði jafnara í sumar. Nú er jarðarberjarækt orðin þannig að hún er óháð veðri.“

Jarðarber í október

Hann segir að uppskeran hafi fimmfaldast í fyrrasumar en áætlanir eru um að toppa það í ár.

„Nú ætlum við að hafa vor fram á haust. Þannig að það verða jarðarber – fersk íslensk jarðarber – alveg fram á haust og jafnvel fram í október. Þetta selst vel og það er gaman að hafa puttana í þessu, alveg ofboðslega skemmtilegt. Neytendur hafa tekið þessu vel og börnin borða vel af berjum. Núna er engin ástæða til að hafa nammidaga í sumar, nú er bara að borða hollt og fá sér jarðarber,“ segir Gunnlaugur Karlsson að endingu og hlær.