Nepal Gríðarleg eyðilegging blasir alls staðar við í Katmandú.
Nepal Gríðarleg eyðilegging blasir alls staðar við í Katmandú. — AFP
Malín Brand malin@mbl.is Nepölsk stjórnvöld lýstu á laugardag yfir neyðarástandi á svæðum sem verst urðu úti vegna skjálftans. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við ákallinu hafa ekki látið á sér standa og tekur Ísland meðal annarra landa þátt í að aðstoða.

Malín Brand

malin@mbl.is

Nepölsk stjórnvöld lýstu á laugardag yfir neyðarástandi á svæðum sem verst urðu úti vegna skjálftans. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við ákallinu hafa ekki látið á sér standa og tekur Ísland meðal annarra landa þátt í að aðstoða.

Utanríkisráðherra ákvað í gær að 10 milljónum króna skyldi varið til Alþjóðasambands landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Bættust milljónirnar tíu við þær fimm sem Rauði kross Íslands lagði fram til söfnunarinnar.

Safnanir eru fleiri hér á landi og má þar nefna að UNICEF á Íslandi safnar fjármunum fyrir nauðþurftum til handa börnum í Nepal.

Kalla eftir neyðarvistum

UNICEF er á hamfarasvæðinu og vinnur nú með stjórnvöldum og samstarfsaðilum að því að útvega börnum helstu nauðsynjar. „Sjúkrahús eru byrjuð að kalla eftir neyðarvistum og UNICEF á töluvert af neyðarbirgðum í landinu, þannig að veitt verða lækningagögn, lyf og tjöld til að búa til neyðarsjúkraskýli,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Hann segir að brýnt sé að huga að vatnsveitu og hreinlætismálum við aðstæður sem þessar og eru þau mál í forgangi. „Svo heppilega vildi til að 20 sérfræðingar frá UNICEF voru staddir á fundi í Katmandú, þannig að þeir hefjast strax handa. Fyrstu viðbrögð eru að aðstoða og hlúa að fólki sem þarf að sofa úti á nóttunni. Mikill fjöldi gerir það af ótta við eftirskjálfta.“

Hitastigið er ekki hátt yfir nóttina í Katmandú og lægra eftir því sem ofar er farið í fjalllendinu.

Sálræn aðstoð, teppi og lyf

Þeim fjármunum sem safnast hjá UNICEF á Íslandi verður meðal annars varið í vatn og hreinlætismál, lyf, teppi, tjöld og í sálræna aðstoð fyrir þau börn sem upplifað hafa erfiða hluti eða orðið viðskila við foreldra sína. „Síðan bíða menn upplýsinga frá afskekktari héruðum því ekki er komið í ljós hvert umfang hamfaranna er. Þorpin í dreifðari fjallabyggðum eru oft byggð hátt uppi í hlíðum og mikið af aurskriðum sem fallið hafa á vegi. Það getur hamlað hjálparstarfi,“ segir Bergsteinn. Hér til hliðar eru nánari upplýsingar um hvernig styrkja má ofangreindar safnanir.
Hvernig má styrkja?
» Söfnunarsímar Rauða krossins eru 904-1500, 904-2500 og 904-5500.
» Greiða má með kreditkorti gegnum www.raudikrossinn.is eða leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.
» UNICEF á Íslandi hóf um helgina neyðarsöfnun fyrir Nepal og má styrkja hana með því að senda smáskilaboðin UNICEF í númerið 1900 og renna þá 1.500 krónur til neyðaraðgerða.