[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður fæddist í Reykjavík 27.4. 1955: „Ég átti heima á Marargötu til sjö ára aldurs, götustúf, skammt norður af Landakotsspítala, í faðmi stórfjölskyldu.

Sigurður fæddist í Reykjavík 27.4. 1955: „Ég átti heima á Marargötu til sjö ára aldurs, götustúf, skammt norður af Landakotsspítala, í faðmi stórfjölskyldu. Síðan hefur fylgt mér vægur söknuður eftir sólríkri bernskutíð og hægum norðanblæ í Vesturbænum.

Við fluttum svo inn í Álfheima, í nýklárað úthverfi en þar bjó tíundi hluti allra landsins barna.

Helsti kosturinn við nýju heimkynnin var víðátta Laugardalsins með skurði og kýr á beit, laumureykingar og sinubruni. Þarna var líka Laugardalsvöllur og höll, sundlaug og útibú Borgarbókasafnsins. Ég gekk í skátana og fann mig þar fram eftir unglingsárunum.

Við fluttum svo í Fossvog 1971 og á unglingsárum bjó ég eitt ár í Eugene, Oregon á vesturströnd Bandaríkjanna á skiptinemaári.“

Sigurður var eitt ár í Öldugötuskóla, síðan í Langholtsskóla og lauk stúdentsprófi frá MR 1975 þar sem hann kynntist Bergþóru, konu sinni. Hann lauk BA-prófi í sálfræði frá HÍ 1980 og framhaldsnámi í þroskasálfræði frá ríkisháskólanum í Utah 1985 en Bergþóra lauk prófum í jarðeðlisfræði.

Á unglingsárunum var Sigurður í sumarvinnu á Laugardalsvellinum, í símavinnu, ók laxakörlum í Norður-Þingeyjarsýslu í tvö sumur og var til sjós sumarið eftir stúdentspróf en á árunum í kringum háskólanám vann hann m.a. hjá skipamiðlara.

Sigurður var sálfræðingur hjá Barnaverndarráði og á Barnadeild Heilsuverndarstöðvar en frá 1986 hefur hann starfað við HÍ, fyrst við uppeldis- og kennslufræði en frá 1988 við sálfræðikennslu. Hann hefur verið prófessor í sálfræði frá 2000: „Ég hef sinnt mínu draumastarfi við HÍ í bráðum 30 ár. En þegar draumar rætast verða þeir oft svolítið öðru vísi en okkur dreymdi þá. Starf háskólakennara er oft meira á breiddina en dýptina; yfirferð, annir og stjórnsýsla koma í stað rólegrar ígrundunar sem sumir ímynda sér að hljóti að einkenna starfið. Sálfræðin við HÍ hefur vaxið og dafnað í áratugi – fámennu námskeiðin eru hundrað manns og nemendur mínir frá upphafi skipta þúsundum. En ég er stoltur af starfi mínu og held ég hafi gert gagn.

Ég hef enga tölu á þeim nefndum sem ég hef starfað í á vegum háskólans og stjórnvalda. Sem dæmi um slíkt starf má þó nefna að ég var formaður nefndar um málefni samkynhneigðra sem lagði til réttarbætur í þeim efnum 1993 og 1994.

Ég endurnýjaði sambandið við skátahreyfinguna eftir heimkomu frá námi og vann þar að ýmsum góðum verkefnum. Athafnasemi í kringum tónlist hefur líka alltaf verið mikil og eins konar fjölskyldusport. Við hjónin syngjum í Selkórnum, og þar hafa gefist góð tækifæri í einstökum félagsskap til að rækta tónlistarmanninn í sjálfum sér. Ég hef líka spilað og sungið með vinum og kunningjum í ýmsu samhengi og fékk að vera með á nokkrum ansi göfugum geisladiskum skömmu eftir aldamótin. Svo hjóla ég, hleyp og tölti um hálendið með góðum hópi nú síðustu árin.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar er Bergþóra Sólveig Þorbjarnardóttir, f. 1.12. 1955, jarðskjálftafræðingur. Foreldrar hennar eru Svala Sigurðardóttir, f. 1932, skólaritari, og Þorbjörn Karlsson, f.1927, d. 2012, prófessor í verkfræði.

Börn Sigurðar og Bergþóru eru Þorbjörn, f. 12.9. 1979, verkfræðingur, banka- og tónlistarmaður á Seltjarnarnesi en kona hans er Anna Dóra Ófeigsdóttir tækniteiknari og er sonardóttirin Auður Anna, f. 2009; Grétar Dór, f. 27.2. 1982, hdl. á Seltjarnarnesi en kona hans er Heiðrún Björk Gísladóttir lögfræðingur og er sonardóttirin Hanna Sólveig, f. 2013; Kári, f. 14.8. 1985, stærðfræðikennari í MR en kona hans er Edda Halldórsdóttir listfræðingur, og Helga Svala, f. 28.8. 1989, háskólanemi og flautuleikari.

Alsystkini Sigurðar eru Jakobína Marta, f. 1956, geislaeðlisfræðingur á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg; Halldóra, f. 1962, hjúkrunarfræðingur á Landspítala, búsett í Reykjavík; Haraldur, f. 1968, sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri í Cuxhaven.

Hálfsystur Sigurðar, samfeðra, eru Gréta Hrund Grétarsdóttir, f. 1967, ljósmóðir í Hafnarfirði; Þóra Steinunn Pétursdóttir, f. 1971, félagsráðgjafi í Garðabæ; Heiðrún Grétarsdóttir, f. 1979, viðskiptafræðingur í Hafnarfirði; Þórunn Grétarsdóttir, f. 1980, kennari í Hafnarfirði.

Hálfbróðir Sigurðar, sammæðra, er Jón Kjartan Jónsson, f. 1973, sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri á Akureyri.

Uppeldissystkini Sigurðar eru Þorsteinn V. Jónsson, f. 1963, veðurfræðingur í Reykjavík; Elín R. Jónsdóttir, f. 1966, efnaverkfræðingur í Reykjavík.

Foreldrar Sigurðar eru Dóra Hafsteinsdóttir, f. 1936, orðabókaritstjóri og þýðandi í Reykjavík, og Grétar Haraldsson, f. 1935, hrl. í Reykjavík.