Endurkoma Arnar Pétursson er aftur orðinn þjálfari karlaliðs ÍBV í handknattleik.
Endurkoma Arnar Pétursson er aftur orðinn þjálfari karlaliðs ÍBV í handknattleik. — Ljósmynd/Sigfús G. Guðmundsson
Arnar Pétursson var um helgina ráðinn þjálfari bikarmeistara ÍBV í handknattleik og tekur hann við starfi Gunnars Magnússonar sem á dögunum var ráðinn til Hauka. Arnar er öllum hnútum kunnugur hjá ÍBV.

Arnar Pétursson var um helgina ráðinn þjálfari bikarmeistara ÍBV í handknattleik og tekur hann við starfi Gunnars Magnússonar sem á dögunum var ráðinn til Hauka. Arnar er öllum hnútum kunnugur hjá ÍBV. Hann lék í mörg ár með liðinu og tók svo við þjálfun þess árið 2009. Undir stjórn hans og Erlings Richardssonar vann ÍBV 1. deildina 2013 og ásamt Gunnari Magnússyni gerði Arnar ÍBV að Íslandsmeisturum í fyrra. Hann ákvað í kjölfarið að taka sér frí frá þjálfun en er nú mættur aftur í slaginn.

„Maður svarar kallinu enda þykir manni svo vænt um þennan klúbb. Það verður virkilega spennandi að taka upp þráðinn aftur. Ég þjálfaði liðið í fjögur ár en ákvað síðan að draga mig til hliðar. Ég fann það fljótlega að áhuginn á að fara aftur út í þjálfunina kviknaði,“ sagði Arnar við Morgunblaðið.

Eyjamenn hafa orðið fyrir blóðtöku. Agnar Smári Jónsson, einn besti leikmaður liðsins undanfarin tvö ár, samdi á dögunum við danska liðið Mors/Thy og þá er ljóst að Guðni Ingvarsson yfirgefur eyjuna fögru.

„Það er mikill missir í þessum leikmönnum en við munum reyna að fylla þeirra skörð eins vel og mögulegt er. Við höfum hlúð vel að ungum leikmönnum hjá okkur og munum gera það áfram. Við ætlum okkur að vera áfram með gott lið hér í Eyjum,“ sagði Arnar. gummih@mbl.is