[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Þröstur Guðmundsson hefur farið í saumana á umhverfisáhrifum álframleiðslu. Þröstur er doktor í efnaverkfræði og starfar hjá HRV Engineering.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Þröstur Guðmundsson hefur farið í saumana á umhverfisáhrifum álframleiðslu. Þröstur er doktor í efnaverkfræði og starfar hjá HRV Engineering. Segir hann mikinn mun á þeirri kolefnislosun sem verður við öflun raforkunnar sem þarf til framleiðslu áls eftir því hvers konar orkugjafi er notaður.

Ársfundur Samáls verður haldinn á þriðjudagsmorgun í Hörpu og flytur Þröstur þar erindið Kolefnisfótspor áls: Ísland og umheimurinn . Að auki taka til máls Ragnar Guðmundsson stjórnarformaður Samáls, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Bjarni Andrésson og María G. Sveinbjarnardóttir vöruhönnuðir hjá Össuri, og Daniel Goodman markaðsstjóri Alcoa í flugsamgöngum.

Notkun vegur upp á móti losun

„Álframleiðsla veldur losun ýmissa lofttegunda annarra en koltvísýrings. Má þar nefna flúorgös sem hægt er að gefa kolefnisgildi til að mæla betur umhverfisáhrifin. Ýmis tölfræðileg gögn liggja fyrir, s.s. grænt bókhald álframleiðenda á Íslandi og í Evrópu sem gerir okkur kleift að bera saman áhrif ólíkra valkosta,“ segir Þröstur. „Einnig er forvitnilegt að skoða hvaða áhrif notkun áls hefur til að minnka koltvísýringslosun annars staðar og hvernig t.d. notkun áls í smíði bíla léttir bílana og minnkar þar með það koltvísýringsmagn sem flotinn notar.“

Eins og við er að búast er kolefnislosunin að baki hverju tonni af áli minnst á þeim svæðum þar sem notast er við endurnýjanlega orkugjafa eins og vatnsaflsvirkjanir. Segir Þröstur að framleiðsla áls í löndum eins og Íslandi sé langtum umhverfisvænni en t.d. framleiðsla í Mið-Austurlöndum eða Kína.

„Í Miðausturlöndum er jarðgasi brennt til að búa til raforku til framleiðslunnar, en Kína er mjög háð orku úr kolum og Ástralar nota brúnkol sem er það allraversta hvað varðar hnattræn áhrif.“

Koltvísýringur ekki umflúinn

Þröstur segir að jafnvel þó notaður sé umhverfisvænn orkugjafi þá geti áframleiðsla aldrei farið fram án þess að koltvísýringur sé losaður því framleiðslan feli í sér efnahvörf sem gefa frá sér koltvísýring. „Aftur á móti hefur álnotkunin jákvæð áhrif t.d. með því að létta farartækin sem við notum. Þannig sparast um 1.500 til 2.000 tonn af koltvísýringslosun á líftíma flugvélar ef tekst að létta flugvélina um 100 kg með áli. Fyrir dæmigerðan fólksbíl má áætla að koltvísýringslosunin sem sparast með álnotkun sé a.m.k. fjórföld sú losun sem verður til við framleiðslu álsins í íslenskri verksmiðju.“

Að sögn Þrastar er vert að gefa því gaum að vöxturinn í álframleiðslu í dag er ekki síst í Mið-Austurlöndum þar sem raforka framleidd með jarðgasi er seld á lægra verði en íslensk raforka úr vatnsaflsvirkjunum. „Þetta eru lönd eins og Katar sem á ofgnótt af jarðgasi en hins vegar lítið af olíu. Gasið er verðmæt afurð og Katar er stærsti útflytjandi fljótandi jarðgass í heiminum. Gasið er líka notað í Katar til framleiðslu á raforku og notkunar í iðnaði, þar á meðal í álveri Qatalum sem slagar upp í að hafa álíka framleiðslugetu og öll íslensku álverin samanlagt.“

Þetta vekur áhugaverðar spurningar um hvaða viðhorf ríki á borð við Ísland ættu að hafa gagnvart álframleiðslu. „Ál er eftirsóttur málmur, mikið til af því bundið í jarðskorpunni, og ekki útlit fyrir annað en að álframleiðsla í heiminum eigi eftir að aukast. Viljum við hafa þessa framleiðslu annars staðar, þar sem hnattrænu áhrifin eru meiri, eða í okkar eigin bakgarði en þá með þeim ávinningi að kolefnislosunin er mun minni en ella væri og hnattræn áhrif í lágmarki?“